Erlent

Handtekinn vegna áforma um árás á bandaríska þinghúsið

Atli Ísleifsson skrifar
Hinn grunaði á að hafa haft áform um að drepa bandarískan embættismann.
Hinn grunaði á að hafa haft áform um að drepa bandarískan embættismann. Vísir/AFP
Bandaríska alríkislögreglan FBI hefur handtekið mann í Ohio-ríki vegna áforma um að ráðast á bandaríska þinghúsið í Washington. Fyrirætlanir mannsins eiga að hafa verið undir áhrifum af hryðjuverkaárásum ISIS og fleiri hryðjuverkasamtaka.

Í frétt breska ríkisútvarpsins kemur fram að samkvæmt dómsskjölum hafi maðurinn, Christopher Cornell, verið ákærður vegna áforma um að drepa bandarískan embættismann.

Yfirvöld veittu manninum, sem er tvítugur, fyrst athygli í ágúst eftir að hann lýsti yfir stuðningi við öfgahópa á borð við ISIS á Twitter-síðu sinni. Rak hann Twitter-reikning undir dulnefninu Raheel Mahrus Ubaydah.

John Barrios, talsmaður lögreglu í borginni Cincinnati, segir að almenningi hafi ekki stafað hætta af manninum á meðan á rannsókn stóð.

Cornell var handtekinn eftir að hafa keypt sér skotvopn fyrr í dag, en honum hafði þá verið veitt eftirför um nokkurt skeið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×