Erlent

Sagðist ætla að drepa forseta fulltrúadeildar Bandaríkjanna

Samúel Karl Ólason skrifar
John Boehner, leiðtogi meirihluta Repúblikana á þingi í Bandaríkjunum.
John Boehner, leiðtogi meirihluta Repúblikana á þingi í Bandaríkjunum. Vísir/AFP
Barþjónninn Michael Hoyt, hefur verið ákærður fyrir að hóta að myrða John Boehner, foreseta fulltrúadeildar Bandaríkjanna og leiðtoga meirhluta Repúblikana. Hoyt hefur margoft afgreitt Boehner og segir hann vera dónalegan.

Hoyt hefur átt við geðræn vandamál að stríða og er hættur að taka lyfin sín, samkvæmt Sky News. Hann var rekinn úr starfi sínu sem barþjónn í sveitaklúbbi í Ohio þar sem Beohner er tíður gestur.

Snemma á nýju ári, um viku eftir að hann var rekinn, hringdi Hoyt í lögregluna og kenndi hann Boehner um að hann hefði misst starfið. Hann sagðist hafa heyrt raddir frá bílnum sínum, sem sögðu honum að Boehner væri illur. Hann sagði lögregluþjónum einnig að Boehner væri ábyrgur fyrir ebóluveiruna.

Í ákærunni segir að Hoyt sé sannfærður um að Boehner sé djöfullinn og að hann sjálfur sé Jesús Kristur.

Hann mun hafa tilkynnt lögreglunni að hann ætti byssu og að hann ætlaði að skjóta Boehner. Þá sagði hann einnig að það væri mjög auðvelt að eitra fyrir honum.

Þar að auki sendi hann eiginkonu Boehner tölvupóst þar sem hann heimtaði fund með honum og öðrum þingmanni. Í póstinum stóð: „Ef ég hefði hug á að meiða Boehner, hefði ég getað eitrað fyrir honum margoft.“

Hoyt er nú á geðdeidl, en Boehner sagði lögreglu að hann myndi ekki eftir því að hafa átt í nokkurs konar orðaskiptum við barþjóninn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×