Erlent

Óánægja með sundfatakeppni fyrir átta ára stúlkur

Bjarki Ármannsson skrifar
Frá fegurðarsamkeppninni Ungfrú heimur.
Frá fegurðarsamkeppninni Ungfrú heimur. Vísir/AP
Fegurðarsamkeppnin „Little Miss Thong“, eða „Ungfrú þvengur“, hefur vakið talsverða gremju meðal netverja í dag. Um er að ræða viðburð í bænum Barbosa í Kólumbíu þar sem átta ára stelpur keppa sín á milli í sundfötum um hylli dómara.

Keppnin fór fram á sunnudag og er hluti af árlegri hátíð þar í bæ, að því er fréttaveitan AFP greinir frá. Bæjaryfirvöld í Barbosa, þar á meðal bæjarstjórinn Rocio Galeano, verja keppnina þrátt fyrir að margir segi hana til skammar og vanvirðingu við stúlkurnar sem taka þátt.

„Við myndum aldrei láta stelpurnar gera eitthvað óviðeigandi eða dónalegt,“ sagði Galeano í viðtali við útvarpsstöð í Barbosa. „Við erum bara að leggja áherslu á að standa vörð um líkamann og að sjá vel um hann. Keppnin gerir börnunum kleift að taka þátt í öllum viðburðunum.“

Cristina Plazas, forstjóri barnaverndarnefndar Kólumbíu, er ósammála bæjarstjóranum

„Skelfilega óábyrgt af foreldrunum“ skrifar Plazas á Twitter-síðu sína. „Keppnin er til skammar.“

Plazas segist hafa rætt við lögmenn og íhugi nú lögsókn gegn skipuleggjendum „Ungfrúar þvengs“ og foreldrum barnanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×