Erlent

„Algjör vitleysa“ að Kim Jong-Un ætli að opna veitingastað í Skotlandi

Bjarki Ármannsson skrifar
Kim Jong-Un er talinn áhugamaður um málefni Skotlands.
Kim Jong-Un er talinn áhugamaður um málefni Skotlands. Vísir/AFP
Fulltrúar norður-kóreskra stjórnvalda neita því að leiðtogi landsins, Kim Jong-Un, hyggist nú opna veitingastað í Skotlandi. Blaðið Scotsman birti í dag frétt þar sem fullyrt var um þessi áform og sagði Michael Madden, sérfræðingur um málefni asíska einræðisríkisins, í viðtali við blaðið að það kæmi honum „alls ekki á óvart“ ef slíkur staður myndi opna í Skotlandi.

Jong-Un er sagður hafa fengið talsverðan áhuga á málefnum Skotlands við að fylgjast með þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði landsins í september. Var þá haft eftir honum að það væri „mjög jákvætt“ ef Skotar fengju sjálfstæði frá Bretlandi, en sú varð ekki raunin.

Þá er skoskt viskí í miklu uppáhaldi hjá efri stéttum Norður-Kóreu og gæti það hafa hjálpað til við að hrinda orðrómnum um veitingastað í Skotlandi af stað. Í samtali við breska blaðið The Independent segir hins vegar talsmaður norður-kóreska sendiráðsins í Bretlandi ekkert til í getgátunum.

„Þetta er algjör vitleysa,“ segir hann.

Ungar konur syngja fyrir viðskiptavini

Veitingahúsakeðjan Pyongyang, sem heitir í höfuðið á höfuðborg Norður-Kóreu, er í eigu ríkisstjórnar Jong-Un og rekur nokkra staði utan landsteinanna. Meðal annars er slíka staði að finna í Peking og Kúala Lúmpúr og í Amsterdam, en þar í borg breytti staðurinn um nafn árið 2013.

Veitingastaðirnir bjóða upp á norður-kóreskan mat ásamt því að ungar konur dansa, syngja og leika á hljóðfæri fyrir gestina milli þess sem þær bera fram matinn.


Tengdar fréttir

Kalla Barack Obama "apa“

Þjóðaröryggisráð Norður Kóreu segir Bandaríkin hafa lokað fyrir netaðgang þjóðarinnar.

Norður-Kórea hótar Bandaríkjunum

„Orðrómar um netárás Norður-Kóreu var búinn til af leppstjórn Suður-Kóreu,“ segir í tilkynningu frá Pyonyang.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×