Kvöldið var afar sérstakt fyrir Guðmund Guðmundsson, landsliðsþjálfara Danmerkur. Þá mætti hann drengjum sem hann þjálfaði í mörg ár og vann til tveggja verðlauna með á stórmótum.
„Þetta var frábær sigur og við spiluðum frábæran leik. Sérstaklega fyrri hálfleikurinn hjá okkur. Þá buðum við upp á stórkostlegan handbolta. Spiluðum frábæra vörn og keyrðum á þá hraðaupphlaup. Svo fannst mér sóknarleikurinn vera mjög vel útfærður.
„Við bætum í en svo fannst mér við slaka heldur mikið á undir lokin en það gerist alltaf er lið eru búin að innbyrða sigurinn."
Guðmundur gat þó hrósað sínum gömlu lærisveinum.
„Mér fannst íslenska liðið berjast ótrúlega vel og eiga hrós skilið fyrir það. Að þessu sinni vorum við of sterkir fyrir þá en íslenska liðið gafst aldrei upp. Það er stórt hjarta í liðinu. Þeir mega vera stoltir og mér finnst liðið vel spilandi."
Guðmundur reyndi eins og hann gat að leggja tilfinningarnar til hliðar fyrir leikinn en auðvitað var þetta mjög sérstakur leikur fyrir hann.
„Maður þarf að gera það. Vera faglegur og vinna fyrir sitt lið. Þetta eru íþróttir. Auðvitað eru alltaf tilfinningar sem bærast í brjósti manns. Mér þykir auðvitað vænt um þessa drengi en svona er þetta. Það er enginn annars bróðir í leik."
Hlusta má á viðtalið hér að ofan.
Guðmundur: Þykir vænt um drengina í íslenska liðinu

Tengdar fréttir

Arnór: Ég spilaði illa á þessu móti
Arnór Atlason var fúll út í sjálfan sig eftir tapið gegn Dönum og einnig fúll með að vera á leið heim.

Umfjöllun: Ísland - Danmörk | Ísland úr leik á HM
Guðmundur Guðmundsson og danska liðið sá til þess að Ísland féll úr leik á HM í handbolta í kvöld.

Ásgeir Örn: Vandamálið liggur í andlega þættinum
Ásgeir Örn Hallgrímsson segir að andlega hliðin hafi brugðist íslenska liðinu í upphafi leikja á HM.

Róbert: Við áttum aldrei möguleika
Línumaðurinn Róbert Gunnarsson fann sig ekki frekar en flestir aðrir leikmenn íslenska liðsins gegn Dönum í kvöld.