Erlent

Önnur skotárás í Kaupmannahöfn: Maður skotinn í höfuðið

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Nörreport lestarstöðin í Kaupmannahöfn.
Nörreport lestarstöðin í Kaupmannahöfn. Mynd/Wikipedia Commons
Maður var skotinn í höfuðið nærri bænahúsi gyðinga við Krystalsgötu í miðbæ Kaupmannahafnar um miðnætti í kvöld að íslenskum tíma. Þá hafa tveir lögregluþjónar orðið fyrir skotum í handlegg og fótlegg í sömu skotárás að sögn lögreglunnar í dönsku höfuðborginni.

Fertugur Dani féll í skotárás við Krudttönden-leikhúsið um fjögurleytið að staðartíma í dag og þrír lögreglumenn særðust. Sænski skopmyndateiknarinn Lars Vilks telur að hann hafi verið skotmarkið en ráðstefna um guðlast og tjáningarfrelsi fór fram í leikhúsinu í dag. Það hefur þó ekki fengist staðfest.

Eins manns er leitað í tengslum við fyrri skotárásina, sem lögreglan metur sem hryðjuverkaárás, en ekki liggur fyrir hvort sami maður sé grunaður um síðari skotárásina þótt lýsingar á mönnunum séu svipaðar. Þá liggur ekki ljóst fyrir hvort skotárásirnar tengjast með beinum hætti eður ei. Danskir miðlar greina frá því að lestarstöðin við Nörreport hafi verið afgirt. Notast er við þyrlur við leitina. Enginn hefur verið handtekinn enn sem komið er vegna málsins.

Þá er danska lögreglan með grannt eftirlit á landamærum landsins við Svíþjóð og Þýskaland.

Ríkisútvarpið í Danmörku fylgist grannt með gangi mála.


Tengdar fréttir

Skotárás í Kaupmannahöfn

Allt að fjörutíu skotum var hleypt af við menningarhúsið Krudttønden á Austurbrú í Kaupmannahöfn í dag og er gríðarlegur viðbúnaður hjá lögreglu sem segir fertugan Dana hafa látið lífið í árásinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×