Enski boltinn

Gíbraltar með FIFA fyrir dómstóla

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Knattspyrnusamband Gíbraltar ætlar að fara með umsókn sína um aðild að Alþjóðaknattspyrnusambandinu, FIFA, fyrir alþjóðlegan áfrýjunardómstól íþróttamála í Lausanne [e. CAS].

Gíbraltar þurfti að fara sömu leið til að fá aðild sína að Knattspyrnusambandi Evrópu, UEFA, samþykkta en eftir að það gekk í gegn fékk knattspyrnulandslið Gíbraltar að taka þátt í undankeppni EM 2016.

Ársþing FIFA fer fram í lok maímánaðar og verður mál Gíbraltar tekið fyrir hjá CAS viku fyrr. Ef Gíbraltar vinnur málið er líklegt að FIFA neyðist til að samþykkja umsóknaraðildina.

FIFA hafnaði umsókn Gíbraltar í september síðastliðnum þar sem Gíbraltar telst ekki sjálfstætt ríki heldur landssvæði sem er undir yfirráðum Bretlands. Gíbraltar er þó með heimastjórn en mikilvægir þættir á borð við utanríkis- og varnarmál eru enn undir stjórn bresku ríkisstjórnarinnar.

FIFA hefur ekki viljað tjá sig um málið en forsvarsmönnum knattspyrnusambands Gíbraltar finnst illa farið með sig. Spænsk knattspyrnuyfirvöld hafa einnig barist gegn því að Gíbraltar komist inn í FIFA enda hefur Spánn aldrei viðurkennt fullveldi landsins.

Ef Gíbraltar fær aðild sína samþykkta fær knattspyrnulandslið landsins þátttökurétt í undankeppni HM 2018.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×