Erlent

Mótmæltu banni á heimildarmyndinni Dóttir Indlands

Bjarki Ármannsson skrifar
Frá mótmælum í Nýju-Delí vegna málsins.
Frá mótmælum í Nýju-Delí vegna málsins. Vísir/AFP
Sjónvarpsstöðin NDTV á Indlandi hefur vakið mikla athygli fyrir að sýna stillimynd í klukkutíma til þess að mótmæla banni við sýningu heimildamyndarinnar Dóttir Indlands. Kvikmyndin umdeilda fjallar um grimmilega hópnauðgun sem átti sér stað í landinu árið 2012.

Til stóð að sýna heimildarmyndina í heild sinni í kvöld en yfirvöld á Indlandi komu í veg fyrir það. Telja þau að efniviður myndarinnar sé hneykslanlegur og ekki við hæfi almennings. Brugðu þá umsjónarmenn NDTV á það ráð að sýna stillimynd með heiti myndarinnar á þeim tíma sem hún átti að vera á dagskrá í mótmælaskyni.

Dóttir Indlands segir frá því þegar hinni 23 ára Jyoti Singh var nauðgað og hún myrt í strætisvagni í Nýju-Delí árið 2012. Árásin leiddi til gífurlegra mótmæla á Indlandi og víðar í heiminum, þar sem farið var fram á breytt viðhorf gagnvart konum á Indlandi.

Myndin er framleidd af breska ríkisútvarpinu (BBC) en í henni er meðal annars tekið viðtal við einn mannanna sem hlaut dauðadóm í málinu. BBC hefur neitað því að með því að taka viðtal við manninn, sem bíður aftöku, hafi verið farið á bak við samkomulag við fangelsisyfirvöld. Myndin var sýnd í bresku sjónvarpi síðastliðið miðvikudagskvöld.

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×