Erlent

„Þroskuð“ 13 ára stúlka tapar nauðgunarmáli í Svíþjóð

Samúel Karl Ólason skrifar
Stúlkan hafði strokið frá heimili sínu og hafi verið peningalaus og á götunni. Mynd tengist frétt ekki beint.
Stúlkan hafði strokið frá heimili sínu og hafi verið peningalaus og á götunni. Mynd tengist frétt ekki beint. Vísir/Getty
Sænsk stúlka sem sakaði 27 ára gamlan mann um að nauðga sér þegar hún var þrettán ára hefur tapað máli sínu. Dómarar töldu að maðurinn hefði ekki getað áttað sig á því að stúlkan væri undir aldri. Hann hefur nú verið sýknaður í tveimur dómstigum í Svíþjóð, en lögmaður stúlkunnar segist ætla með málið fyrir Hæstarétt.

Dómarar sögðu að líkami hennar hefði verið svo „þroskaður“ að maðurinn hefði ekki áttað sig á að hún væri ekki orðin 15 ára gömul.

Samkvæmt lögum í Svíþjóð teljast kynmök við barn sem er undir fimmtán ára aldri sem nauðgun. Þó stendur í lögunum að ákærði verði að vita, eða hafa ástæðu til að telja að barnið sé undir aldri.

Á vef Aftonbladet kemur fram að stúlkan hafði strokið frá heimili sínu og hafi verið peningalaus og á götunni. Maðurinn fann hana þar sem hún lá á bekk nærri heimili hans og bauð henni inn í mat.

Í fyrstu neitaði maðurinn að hún hefði komið inn á heimili hans, en lögreglan fann DNA úr honum í nærbuxum hennar. Hann hélt því fram að hún hafi aldrei sagt til um aldur sinn og hann taldi hana hafa verið 15 til 17 ára gamla.

Dómararnir skoðuðu myndbönd af skýrslutökum stúlkunnar og sögðu að líkami hennar „væri svo þroskaður“ að maðurinn hafi ekki haft ástæðu til að ætla að hún væri ekki orðin kynþroska. Þá töldu dómararnir að talsmáti hennar og framkoma gæfi ekki í skyn að hún væri einungis þrettán ára gömul.

Maðurinn var því sýknaður af nauðgun.

Samkvæmt vefnum Thelocal hefur úrskurðurinn valdið fjaðrafoki á samfélagsmiðlum í Svíþjóð.

Goran Landerdahl, lögmaður stúlkunnar, segir þó að hann muni fara með málið fyrir Hæstarétt. Hann sagði að draga eigi til ábyrgðar alla þá sem hafi kynmök við einstaklinga sem virðist vera á mörkunum með að hafa náð aldri, án þess að kanna aldur þeirra nánar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×