Innlent

Tók einstakar myndir af sólmyrkvanum og unnustu sinni

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ein af sólmyrkvamyndunum glæsilegu sem Óskar Páll tók í gærmorgun.
Ein af sólmyrkvamyndunum glæsilegu sem Óskar Páll tók í gærmorgun. Mynd/Óskar Páll Elfarsson
Ljósmyndir sem Óskar Páll Elfarsson tók af sólmyrkvanum í gær og birti á Facebook-síðu sinni hafa vakið verðskuldaða athygli. Óhætt er að segja að myndirnar séu annars eðlis en flestar þær myndir sem ljósmyndarar hérlendis sem í nágrannalöndunum hafa birt.

„Mig langaði að gera eitthvað öðruvísi við myrkvann en bara að mynda sólina á himninum,“ segir Óskar Páll í samtali við Vísi. Hans hugmynd var að finna fjallsbrún í passlegri hæð og láta sólina bera við hana þegar sólmyrkvinn yrði.

Um síðustu helgi reif Óskar Páll sig því upp og hélt í rúnt suður á Reykjanes í leit að góðum stað fyrir myndatökuna. Hann var á ferðinni um sama leyti og reiknað var með því að sólmyrkvinn yrði og fann fínan stað við Kleifarvatn. Úr varð að hann hélt ásamt Hrund Þórsdóttur, unnustu sinni, á þennan sama stað í gærmorgun og var allt gert klárt fyrir myndatöku.

Myndirnar hafa eðlilega fengið frábær viðbrögð og segir Óskar Páll alltaf gaman að fá viðurkenningu fyrir það sem hann sé að brasa. Hann lærði ljósmyndun á Nýja-Sjálandi árið 2006 og hefur það síðan verið aukavinna hjá honum. Hann vann um tíma hjá Birtingi í myndvinnslu en selur í dag ljósmyndavörur hjá Nýherja.

„Fyrir vikið er þetta ennþá svo mikil ástríða,“ segir Óskar Páll.

Myndirnar hans Óskars Páls má sjá í albúminu hér að neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×