Erlent

Prófanir á nýju lyfi við HIV lofa góðu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Lyfið er í raun mótefni sem á að draga úr veirumagni HIV í blóði sjúklingsins.
Lyfið er í raun mótefni sem á að draga úr veirumagni HIV í blóði sjúklingsins. Vísir/AFP/Getty
Fyrstu prófanir á nýju lyfi við HIV-veirunni lofa góðu ef marka má niðurstöður sem birtar voru í tímaritinu Nature á dögunum.

Lyfið er í raun mótefni sem á að draga úr veirumagni HIV í blóði sjúklingsins. Það er fengið með því að klóna ónæm prótín úr einstaklingum sem hafa mjög sterka náttúrulega vörn gegn sjúkdómnum.

Í frétt BBC kemur fram að flestir myndi náttúruleg mótefni gegn HIV-veirunni en í fæstum tilfellum er sú vörn nægilega sterk til að halda veirunni í skefjum. Rannsóknarteymið fann þó nokkra einstaklinga sem mynduðu óvenjulega sterkt mótefni og klónuðu þeirra prótín fyrir lyfið sem þeir eru að þróa.

Hjá sjúklingum sem fengu hvað mest af mótefninu minnkaði veirumagn verulega. Mismunandi var hversu lengi vörnin virkaði í sjúklingum en í sumum tilfellum var hún virk í allt að fjórar vikur.

Vísindamennirnir segja niðurstöður sínar benda eindregið til þess að mótefnið geti virkað vel í baráttunni við HIV-veiruna. Þó mæla þeir með því að lyf af þessu tagi verði notað með öðrum lyfjum og mótefnum þar sem veiran stökkbreytist auðveldlega. Það hafi verið tilfellið hjá sumum sjúklingum sem prófuðu nýja mótefnið sem hætti þar af leiðandi að virka.

Nánar má lesa um niðurstöður rannsóknarinnar á vef Nature.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×