Erlent

Foreldrar í leit að sjúkdómum fyrir börnin sín

Anna Guðjónsdóttir skrifar
Um 200 virkir notendur eru í Facebook-hópnum.
Um 200 virkir notendur eru í Facebook-hópnum. Vísir/Vilhelm
„Barnasjúkdómar óskast fyrir tvo drengi. Til dæmis hlaupabóla, hettusótt, mislingar, rauðir hundar.“ Þannig hljómar beiðni danskra foreldra sem tilheyra óvenjulegum Facebook hópi. Um er að ræða hóp fyrir foreldra sem leggjast gegn því að bólusetja börn sín.

Í frétt Jyllands-Posten kemur fram að í hópnum sækjast foreldrar eftir því að börn þeirra smitist af sjúkdómum. Önnur auglýsing segir:, „Ég á 18 mánaða gamlan son og leita eftir mislingum og hlaupabólu. Hef einnig áhuga á mislingum.“ Sjúkdómar af þessu tagi verða oft alvarlegri og hættulegri þegar fólk verður eldra. Því nota þessir foreldrar smitin nánast sem bólusetningu, þar sem flesta þessa sjúkdóma fá menn einungis einu sinni yfir ævina.

Hópurinn, sem heitir Smittegruppe til børnesygdomme og er lokaður, hefur verið til í ár og eru um 200 virkir notendur. Allan Randrup Thomsen, prófessor í veirusýkingum við Kaupmannahafnarháskóla, segir þetta verulega hættulegt. „Mörg börn veikjast mjög alvarlega af mislingum. Þetta er sjúkdómur sem getur leitt til ævilangrar örorku eða jafnvel dauða,“ segir hann og varar foreldra við að nota þessa leið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×