Erlent

Rak varnarmálaráðherrann út af umdeildri peysu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Evo Morales, forseti Bólivíu.
Evo Morales, forseti Bólivíu. Vísir/Getty
Evo Morales, forseti Bólivíu, hefur rekið varnarmálaráðherrann, Jorge Ledezma, vegna peysu sem hann klæddist þegar hann fór til Chile til hjálparstarfa.

Á peysunni stóð „Bólivía á sjóinn“ en um slagorð er að ræða sem vísar í aldagamlar deilur Bólivíu og Chile um 400 kílómetra landsvæði sem liggur að Kyrrahafi. Landsvæðið hefur tilheyrt Chile frá því í Kyrrahafsstríðinu sem stóð frá 1879 til 1883.

Bólivía tapaði landsvæðinu í stríðinu en hefur síðan þá ítrekað reynt að fá það til baka.

Ríkisstjórn Chile gagnrýndi bólivíska varnarmálaráðherrann fyrir peysuna en hann var í Chile til að fara með drykkjarvatn á flóðasvæði í norðurhluta landsins.

Hann sagðist ekki vera kominn til að ögra heldur til að láta gott af sér leiða og að hann hefði bara farið í peysuna því honum var kalt.

Forseti Bólivíu var þó ekki sama sinnis og setti Ledezma af auk þess sem hann bað ríkisstjórn Chile afsökunar á hegðun hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×