Erlent

Drottningin veitir Cameron stjórnarumboð

Heimir Már Pétursson skrifar
David Cameron leiðtogi Íhaldsflokksins í Bretlandi gekk á fund Elísabetar drottningar í dag og fékk umboð til myndunar nýrrar ríkisstjórnar eftir stórsigur í bresku þingkosningunum í gær.

Úrslit bresku þingkosninganna í gær komu nokkuð á óvart þar sem kannanir höfðu bent til að mjótt yrði á munum milli Íhaldsflokksins og Verkamannaflokksins. Íhaldsflokkurinn vann hins vegar stórsigur með 331 þingmann og hreinan meirihluta og tap bæði fyrrverandi samstarfsflokks, Frjálslyndra demókrata,  og Verkamannaflokksins var stórt.

Þrátt fyrir stórsigur Skorska þjóðarflokksins sem fékk 56 af 59 þingmönnum Skotlands, dugar það ekki til að flokkurinn geti veitt Verkamannaflokknum skjól til stjórnarmyndunar.

David Cameron hélt sigurreifur á fund Elísabetar II drottningar í dag og fékk umboð hennar til myndunnar nýrrar ríkisstjórnar. Hann heitir því að auka sjálfdæmi íbúa Skotlands, Wales og Norður Írlands eins og allir flokkar höfðu lofað.

„Ég er nýkominn af fundi hennar hátignar og mun í framhaldinu mynda nýja meirihlutastjórn Íhaldsflokksins. Og já, við munum standa við þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild okkar að Evrópusambandinu. Á sama tíma munum við gæta þess að halda einingu meðal bresku þjóðarinnar,“ sagði Cameron sigurglaður á tröppum Downinstrætis 10 í dag.

Ed Milliband sem telst til vinstri í Verkamannaflokknum vann leiðtogakjörið árið 2010 gegn bróður sínum David sem var meira á Blair-línunni. En það var greinilegt að Bretum hugnaðist ekki stefna hans.

„Fyrr í dag hringdi ég til David Cameron til að óska honum til hamingju. Ég tek fulla ábyrgð á úrslitunum og tapi okkar í kosningunum. Nú er kominn tími til að einhver annar taki við leiðtogahlutverkinu í flokknum,“ sagði Milliband á fundi með flokksmönnum.

Nick Clegg leiðtogi Frjálslyndra demókrata og fyrrverandi aðstoðarforsætisráðherra sagðist alltaf hafa búist við að kosningarnar yrðu flokknum erfiðar eftir veru hans í ríkisstjórn með Íhaldsflokknum. En flokkurinn tapaði stórt, fór úr 56 þingmönnum í átta.

„Og ég verð auðvitað að axla ábyrgðina á því og lýsi því þess vegna yfir að ég hef sagt af mér sem leiðtogi flokksins. Leiðtogakjör mun nú fara fram samkvæmt reglum flokksins þar um,“ sagði Nick Clegg eftir ósigurinn í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×