Erlent

Sparkaði í andlit liggjandi manns

Samúel Karl Ólason skrifar
Lögregluþjónninn sparkaði í andlit mannsins þegar hann var lagstur á fjóra fætur.
Lögregluþjónninn sparkaði í andlit mannsins þegar hann var lagstur á fjóra fætur.
Lögreglan í Dover í Bandaríkjunum birti í gær myndband af lögregluþjóni sparka í andlit manns sem var að leggjast í jörðina við handtöku. Lögregluþjónninn hefur verið ákærður fyrir líkamsárás vegna atviksins, en maðurinn sem hann sparkaði í er svartur.

Síðustu vikur og mánuði hefur gífurlegur fjöldi atvika komið upp þar sem hvítir lögreglumenn hafa beitt svarta menn ofbeldi. Myndbandið sem tekið var upp í ágúst 2013 var birt eftir ákvörðun dómara eftir ákæru mannsins og Mannréttindasambands Bandaríkjanna (ACLU).

Á myndbandinu má sjá þegar tveir lögregluþjónar nálgast Lateef Dickerson og skipa honum að leggjast á jörðina. Þegar hann er kominn niður á fjóra fætur sparkar Thomas Webster framan í hann. Dickerson missti meðvitund við sparkið og kjálkabrotnaði, samkvæmt AP fréttaveitunni.

Webster var handtekinn á mánudaginn og settur í ólaunað leyfi frá vinnu, eftir að dómstóll komst að þeirri niðurstöðu að hann yrði ákærður. Í mars í fyrra hafði annar dómstóll ákveðið að hann yrði ekki ákærður. Þá komst dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna að þeirri niðurstöðu að lögreglan hefði ekki brotið gegn mannréttindum Dickerson.

Eftir það fóru Mannréttindasamtökin í mál við lögregluna í Dover fyrir hönd Dickerson.

„Við teljum að þetta myndband sýni fram á nauðsyn umfangsmikilla breytinga hjá lögreglunni í Dover,“ segir Kathleen MacRae frá ACLU. „Þá sérstaklega á valdbeitingu þeirra, innra eftirliti og eftirliti með foringjum lögreglunnar.“

Lögregluþjónarnir handtóku Dickerson eftir að þeir voru kallaðir út vegna slagsmála. Þeim var tilkynnt að mögulega hefði skotvopn komið við sögu. Dickerson á langan brotaferil að baki og hefur verið handtekinn vegna vopnaeignar, ölvunarakstur og fleiri brota.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×