Erlent

Þurfa að skrá sig sem kynferðisafbrotamenn eftir kynlíf á ströndinni

Birgir Olgeirsson skrifar
Verknaður parsins var tekinn upp á myndband af ömmu sem var á ströndinni á sama tíma. Myndbandið var lagt fram sem sönnunargagn í réttarhöldum yfir parinu.
Verknaður parsins var tekinn upp á myndband af ömmu sem var á ströndinni á sama tíma. Myndbandið var lagt fram sem sönnunargagn í réttarhöldum yfir parinu.
Bandarískt par á yfir höfði sér allt að fimmtán ára fangelsisvist og þarf að skrá sig á lista yfir kynferðisafbrotamenn eftir að hafa stundað kynlíf á fjölmennri strönd.

Það tók kviðdóm í Manatee-sýslu um korter að komast að þeirri niðurstöðu að sakfella hina tvítugu ElissuAlvarez og hinn fertuga JoseCaballero fyrir ósiðlegt athæfi á almannafæri.

Dómurinn var kveðinn upp eftir tveggja daga réttarhald þar sem saksóknari lagði fram myndband af verknaði parsins sem sönnunargagn. Myndbandið var tekið upp af ömmu sem var á Cortez-ströndinni í Bradenton á sama tíma og parið.

Alvarez og Caballero.
Saksóknarar segja nokkra hafa orðið vitni að verknaði parsins, þar á meðal móður fjögurra ára gamallar stúlku sem segir dóttur sína hafa séð allt saman.

Verjendum parsins tókst ekki að sannfæra kviðdóminn um að Alvarez hefði í raun verið að dansa á Caballero. „Hún var ekki að dansa,“ sagði saksóknarinn Anthony Dafonseca, sem gerði grín að þessari vörn. „Það er móðgandi fyrir alla þá sem búa yfir heilbrigði skynsemi að halda því fram að þetta sé dans.“

Caballero hafði áður verið dæmdur fyrir sölu á kókaíni og mun því dómari sem ákveður refsingu yfir honum líklega veita honum hörðustu refsinguna sem er í boði fyrir brot af þessu tagi, fimmtán ára fangelsisvist. Ekki er vitað með vissu hversu þungan dóm Alvarez mun fá en parið neitaði samkomulagi við ákæruvaldið sem hefði orsakað mun vægari refsingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×