Erlent

Dave Goldberg dó eftir að hafa runnið til á hlaupabretti

Birgir Olgeirsson skrifar
Dave Goldberg ásamt eiginkonu sinni Sheryl Sandberg.
Dave Goldberg ásamt eiginkonu sinni Sheryl Sandberg. Vísir/EPA
Dave Goldberg, framkvæmdastjóri SurveyMonkey, lést af völdum höfuðáverka eftir að fallið við æfingar á hlaupabretti.

Goldberg fannst liggjandi við hlið hlaupabrettisins á Four Seasons-hóteli í Mexíkó síðastliðinn föstudag. Lögreglan segir Goldberg hafa verið á lífi þegar hann fannst en gaf upp öndina á sjúkrahúsi stuttu síðar.

Lögreglan í Mexíkó ætlar ekki að rannsaka slysið frekar, að því er fram kemur á vef fréttastofu breska ríkisútvarpsins BBC.

Hann er sagður hafa yfirgefið hótelherbergi sitt klukkan 16 að staðartíma til að stunda líkamsrækt. Fjölskylda hans hóf leit að honum þegar hann hafði ekki skilað sér á tilsettum tíma og svaraði ekki í síma.

Talið er að hann hafi runnið til á brettinu og fengið högg á höfuðið við fallið. Hann var 47 ára gamall þegar hann lést og lætur eftir sig eiginkonu, Sheryl Sandberg framkvæmdastjóra hjá Facebook, og tvö börn.

Goldberg var hvað þekktastur fyrir starf sitt hjá SurveyMonkey en hann gekk til liðs við fyrirtækið í apríl árið 2009 og stýrði miklum uppgangi þar á bæ. Hann stofnaði eina af fyrstu tónlistarveitunum, LaunchMedia, árið 1994 og fór fyrir fyrirtækinu allt til ársins 2001 þegar Yahoo keypti það.

Í kjölfar sölunnar var hann gerður að varaforstjóra og framkvæmdastjóra YahooMusic en því starfi sinnti hann til ársins 2007.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×