Erlent

Týndir mörgæsaungar í Noregi fundust dauðir

Atli Ísleifsson skrifar
Mörgæs af tegundinni Humboldt.
Mörgæs af tegundinni Humboldt. Vísir/Getty
Starfsmenn í sædýrasafninu Atlanterparken í Álasundi í Noregi fundu í morgun hræ tveggja mörgæsaunga í garðinum. Tilkynnt var að ungunum hafði verið stolið um helgina og lágu unglingar sem höfðu brotist inn í garðinn undir grun.

Lögregla greinir nú frá því að ekki sé talið að mannfólk tengist dauða unganna. „Það var ekki auðvelt að finna þá þar sem þeir voru undir greinum og öðru lauslegu í gryfjunni,“ segir lögreglumaðurinn Yngve Skovly í samtali við NRK.

Málið hefur vakið mikla athygli í Noregi en starfsfólk í garðinum tilkynnti um hvarf þriggja unga, sem voru af tegundinni Humboldt og er í útrýmingarhættu, og eins mörgæsaeggs um helgina.

Eftirlitsmyndavélar sýndu hvernig sjö úrskriftarnemendur höfðu brotist inn í garðinn að næturlagi og barst grunur að því að þeir hafi stolið ungunum.

Lögregla telur nú að fullvaxnar mörgæsir hafi trampað ungana í hel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×