Erlent

Frans páfi kallar forseta Palestínu „friðarengil“

Bjarki Ármannsson skrifar
Frans páfi tók á móti Mahmúd Abbas, forseta Palestínu, í Vatíkaninu í dag.
Frans páfi tók á móti Mahmúd Abbas, forseta Palestínu, í Vatíkaninu í dag. Vísir/EPA
Frans páfi tók á móti Mahmúd Abbas, forseta Palestínu, í Vatíkaninu í dag, stuttu eftir að tilkynnt var um að Vatíkanið myndi viðurkenna Palestínu sem sjálfstætt ríki. Páfinn kallaði Abbas „friðarengil“ er hann heiðraði hann með minnispeningi.

Abbas er um þessar mundir í opinberri heimsókn í Vatíkaninu í tilefni þess að á morgun stendur til að taka í dýrlingatölu tvær palestínskar nunnur sem uppi voru á 19. öld. Að því er BBC greinir frá ræddu þeir Páfinn og Abbas saman í einrúmi áður en Páfinn afhenti Abbas svo minnispening með mynd af friðarengli. „Þetta er viðeigandi, því þú ert sjálfur friðarengill,“ á Páfinn að hafa sagt.

Á miðvikudag var tilkynnt um það að Vatíkanið hyggðist skrifa undir samstarfssamning við Palestínu sem felur í sér viðurkenningu á sjálfstæði palestínsks ríkis. Yfirvöld í Ísrael fordæmdu þá yfirlýsingu og segja hana koma í veg fyrir að viðræður þeirra við Palestínustjórn geti náð árangri. Talið er að Vatíkanið vilji með samningnum standa vörð um eigur kaþólsku kirkjunnar á yfirráðasvæði Palestínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×