Erlent

Cameron stokkar upp í ríkisstjórn sinni

Atli Ísleifsson skrifar
Íhaldsflokkurinn vann nokkuð óvæntan sigur í bresku þingkosningunum í síðustu viku.
Íhaldsflokkurinn vann nokkuð óvæntan sigur í bresku þingkosningunum í síðustu viku. Vísir/AFP
David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, kynnti í morgun breytingar á ríkisstjórn sinni í kjölfar þingkosninganna sem fram fóru síðastliðinn fimmtudag.

Íhaldsflokkurinn vann nokkuð óvæntan sigur í bresku þingkosningunum í síðustu viku og stendur Cameron nú frammi fyrir að skipa menn í embætti sem Frjálslyndir demókratar skipuðu áður.

Í frétt BBC segir að margar konur innan ríkisstjórnarinnar taki nú við veigameiri ráðherraembættum. Þannig verður Amber Rudd ráðherra orku- og loftslagsmála og Priti Patel ráðherra atvinnumála.

Boris Johnson, borgarstjóri Lundúnaborgar, tekur ekki við ráðherraembætti en mun reglulega sækja sérstaka fundi með ráðherrum ríkisstjórnarinnar. Cameron segir að Johnson muni áfram einbeita sér að því að sinna borgarstjóraembættinu, en nýr borgarstjóri verður kjörinn í maí á næsta ári.

Á meðal annarra breytinga á ríkisstjórn landsins má nefna að Sajid Javid lætur af embætti ráðherra menningarmála og verður ráðherra viðskiptamála. John Whittingdale verður nýr ráðherra menningarmála, fjölmiðlamála og íþróttamála, en Iain Duncan Smith verður áfram ráðherra atvinnu- og lífeyrismála.


Tengdar fréttir

Drottningin veitir Cameron stjórnarumboð

Breski Íhaldsflokkurinn vann stórsigur í kosningum í gær sem er einnig mikill persónulegur sigur fyrir David Cameron. Lofar þjóðaratkvæði um ESB.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×