Erlent

Milljónum köngulóa rigndi niður í Ástralíu

Atli Ísleifsson skrifar
Íbúum leist ekkert á blikuna þegar þeir sáu að verurnar þöktu hús þeirra og stór svæði í kring.
Íbúum leist ekkert á blikuna þegar þeir sáu að verurnar þöktu hús þeirra og stór svæði í kring. Vísir/EPA
Milljónum köngulóa rigndi niður í Southern Tablelands, skammt frá áströlsku höfuðborginni Canberra, fyrr í mánuðinum. Gáttaðir íbúar óttuðust í smá stund að köngulær hefðu gert innrás á landið en atvikið hefur þó náttúrulegar skýringar.

Íbúum leist ekkert á blikuna þegar þeir sáu að verurnar þöktu hús þeirra og stór svæði í kring.

Ian Watson, íbúi í bænum Goulburn, lýsti því þannig að svo virtist sem heimili hans hefði verið yfirgefið og tekið yfir af köngulóm. „Það var þakið litlum köngulóm og þegar ég leit til skýja var líkt og göng af kóngulóavef risi nokkur hundruð metra upp til himins.“

Fögur sjón

Watson segir þetta hafa verið fagra sjón en á sama tíma ergjandi. „Það var ekki mögulegt að fara út án þess að fá köngulóavef á þig. Og ég er líka með skegg svo þær voru alltaf af þvælast í skegginu.“

Akrar í kringum bæinn Wagga Wagga voru þaktir köngulóavefjum en nokkur flóð eru nú á svæðinu.

Nota silkið til að ferðast milli staða

Í samtali við Sydney Morning Herald segja vísindamenn fyrirbrigðið skýrast af því að köngulóaungar fari efst á gróðurinn vegna flóða og þannig forðast drukknun. Svo nýti þeir silkið og vindinn til að ferðast milli staða og þannig virðist sem köngulóm hafi rignt.

Að sögn er þetta algengt í náttúrunni þó að óvenjulegt sé að svo margar köngulær geri slíkt á sama tíma og skilji þar með eftir þessi spor. Þetta fyrirbæri hefur verið nefnt vetrarkvíði á íslensku og er talið boða harðan vetur.

Vísir/EPA
Vísir/EPA
Vísir/EPA
Vísir/EPA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×