Fótbolti

Glenn verður lengur frá | T&T áfram

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Bateau fagnar marki sínu í nótt.
Bateau fagnar marki sínu í nótt. Vísir/Getty
ÍBV þarf að bíða eitthvað lengur eftir framherjanum Jonathan Glenn þar sem að landslið hans, Trinídad og Tóbagó, komst í nótt áfram í fjórðungsúrslit Gullbikarsins sem nú stendur yfir í Bandríkjunum.

Trinídad og Tóbagó vann í nótt 2-0 sigur á Kúbu og hafa þar með unnið báða leiki sína í C-riðli. Mexíkó er í öðru sæti með fjögur stig en liðið gerði markalaust jafntefli við Gvatemala í nótt.

Trinídad og Tóbagó sigraði með mörkum þeirra Sheldon Bateau á sautjándu mínútu og Andre Boucaud undir lok fyrri hálfleiks.

Glenn hefur verið ónotaður varamaður í báðum leikjum síns liðs til þessa en ÍBV tapaði í gær fyrir ÍA, 3-1, í botnslag Pepsi-deildar karla í gærkvöldi.

Trinídad og Tóbagó mun spila í fjórðungsúrslitum keppninnar á sunnudag, en ÍBV mætir Fjölni á Hásteinsvelli þann sama dag. Gunnar Heiðar Þorvaldsson verður þá kominn með leikheimild með Eyjamönnum. ÍBV mætir svo næst Stjörnunni í Garðabæ sunnudaginn 26. júlí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×