Erlent

Erfitt líf „rykkonunnar“: Lést úr magakrabbameini

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Myndin fræga af Marcy Borders.
Myndin fræga af Marcy Borders. vísir/afp
Marcy Borders, betur þekkt sem „rykkonan“ lést á mánudag eftir árslanga baráttu við magakrabbamein. Mynd af Borders sem birtist þann 11. september 2001 varð ein frægasta ljósmyndin af vettvangi hryðjuverkaárasanna í New York þegar tveimur flugvélum var flogið á tvíburaturnana svokölluðu.

Borders  var 28 ára gömul og nýbyrjuð að vinna hjá Bank of America í norðurturninum þegar árásirnar áttu sér stað. Skrifstofa hennar var á 81. hæð en þegar vélin lenti á turninum hljóp hún út. Þar var mikið öngþveiti, mikið ryk og sært fólk hvert sem litið var.

Varð háð krakki og þjáðist af þunglyndi

Ljósmyndin af Borders var tekin þegar ókunnugur maður ýtti henni út úr anddyri annarrar byggingar skömmu áður en að norðurturninn hrundi.

„Hundruð manna voru að reyna að komast út. [...] Ég var viss um að ég myndi deyja. Ég er svo glöð að mér tókst að komast niður. Þar voru margir særðir og þetta var einhvern veginn of mikið. [...] Ég skildi ekki hvað var að gerast og hugsaði með mér „Guð, ég dey hvort sem er,““ sagði Borders eitt sinn í viðtali.

Borders missti smám saman tökin á lífi sínu í kjölfar 11. september. Hún þjáðist af alvarlegu þunglyndi og varð háð krakki. Hún var atvinnulaus í 10 ár og var viss um að Osama bin Laden væri að skipuleggja fleiri árásir.

Ein áhrifaríkasta ljósmyndin

Í apríl 2011 missti Borders forræðið yfir börnunum sínum tveimur og ákvað þá að fara í meðferð. Í fyrra greindist hún svo með krabbamein og greindi frá því hún hefði farið í lyfjamerð vegna meinsins. Þá átti Borders að fara í aðgerð vegna krabbameinsins í desember.

Ljósmyndin af Borders var valin ein af 25 áhrifaríkustu ljósmyndum allra tíma af tímaritinu Time en Borders velti því fyrir sér hvort að eiturefnin sem hún andaði að sér þann 11. september 2001 hefðu valdið því að hún fékk krabbamein.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×