Erlent

Kósóvó fær eigið landsnúmer

Atli Ísleifsson skrifar
Mikill styr hefur staðið í kringum Mitrovica-brúna sem hefur táknrænt skilið að Albani og Serba í Kósóvó.
Mikill styr hefur staðið í kringum Mitrovica-brúna sem hefur táknrænt skilið að Albani og Serba í Kósóvó. Vísir/AFP
Stjórnvöld í Serbíu og Kósóvó hafa gert samkomulag um að Kósóvó fái sitt eigið landsnúmer. Fjölmiðlar túlka samkomulagið á þann veg að Serbar muni á endanum viðurkenna sjálfstæði landsins.

Federica Mogherini, utanríkismálastjóri Evrópusambandsins, hafði milligöngu um samkomulagið og segir að um tímamótasamning sé að ræða.

Kósóvó lýsti yfir sjálfstæði frá Serbíu árið 2008, nærri tíu árum eftir tveggja ára langt stríð Serba og uppreisnarmanna Kósóvóalbana.

Íbúar Kósóvó eru að stærstum hluta Albanir, en samkvæmt samkomulaginu munu Serbar í norðurhluta Kósóvó njóta aukinna réttinda en áður. Þannig munu þeir meðal annars fara með menntamál og fjárreiður þess svæðis.

Einnig var samið um orku- og fjarskiptamál og hvernig skuli stjórna hinni táknrænu Mitrovica-brú sem hefur skilið að þjóðir Serba og Albana í norðurhluta landsins.

Bæði Serbía og Kósóvó sækjast eftir aðild að Evrópusambandinu og segir Aleksandar Vucic, forseti Serbíu, að samkomulagið sérstaklega mikilvægt og merki að ekkert standi nú í vegi fyrir að Serbía geti gengið til liðs við ESB.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×