Erlent

Brutu upp líkkistuna því óttast var að 16 ára stúlka hefði verið grafin lifandi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Ættingjar stúlkunnar brutu sér leið að kistunni og opnuðu hana þar sem stúlkan lá í brúðarkjól.
Ættingjar stúlkunnar brutu sér leið að kistunni og opnuðu hana þar sem stúlkan lá í brúðarkjól.
Ættingjar 16 ára gamallar stúlku í Hondúras óttuðust að hún hefði verið grafin lifandi og brugðu því á það ráð að opna kistu stúlkunnar til að athuga hvort svo gæti verið.

Stúlkan, Nelsy Perez, var komin þrjá mánuði á leið með fyrsta barn sitt þegar hún var úrskurðuð látin á sjúkrahúsi. Ættingjar hennar fóru að óttast um að hún hefði verið grafin lifandi þegar kærasti hennar, Rody Gonzalez, fór að gröf hennar og taldi sig hafa heyrt hljóð koma innan úr kistunni.

Gonzalez segir að hann hafi í fyrstu haldið að ímyndunaraflið væri að spila með sig en starfsmaður í kirkjugarðinum hafði þá einnig heyrt skrýtin hljóð koma úr kistunni.

Ættingjar stúlkunnar brutu sér því leið að kistunni og opnuðu hana þar sem Perez lá í brúðarkjól sem hún ætlaði að klæðast þegar hún myndi giftast barnsföður sínum. Farið var með stúlkuna á spítala í kistunni en læknar fundu engin merki um að hún væri á lífi.

Fjölskyldan segir að ummerki innan í kistunni bendi til að stúlkan hafi verið grafin lifandi; til að mynda hafi glerið yfir andliti Perez verið brotið og þá væri hún með sár á fingrunum.

 

„Hún lyktaði ekki illa og líkami hennar virtist eðlilegur og liturinn á húðinni einnig,“ er haft eftir frænku Perez á vef Guardian.

Málið hefur vakið mikla athygli í Hondúras og velta margir fyrir sér hvort það geti verið að stúlkan hafi verið grafin lifandi. Ekki er annað vitað um orsök dauða hennar en að hún hafi verið mjög veik en því er nú velt upp hvort stúlkan hafi ekki verið dáin heldur verið með dástjarfa eða eitthvað slíkt. Lögreglan hefur þó bent á að glerið í kistunni hafi getað brotnað vegna gastegunda sem losna þegar líkami rotnar.

Myndband af því þegar ættingjar stúlkunnar opna kistuna má sjá hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×