Erlent

Heilræði föður og heitir steinar björguðu lífi ungs drengs

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Leitarmenn leituðu í sólarhring áður en drengurinn fannst.
Leitarmenn leituðu í sólarhring áður en drengurinn fannst. Vísir/Getty
10 ára gamall drengur sem fannst í gær eftir að hafa verið týndur í óbyggðum Utah-ríkis í Bandaríkjunum segir heilræði frá föður sínum og heita steina hafa bjargað lífi sínu

Hinn 10 ára gamli Malachi Bradley var í gönguferð um skóglendi með fjölskyldu sinni. Hafði hann verið að læra um villta sveppi og ráfaði hann inn í þykkan skóginn í leit að slíku góðgæti. Þegar hann áttaði sig á því að hann hafði orðið viðskila við fjölskyldu sína reyndi hann að finna veg svo hann gæti látið vita af sér.

Útbjó spjót til að veiða fisk

Svæðið sem hann týndist á, um 300 kílómetrum austan af Salt Lake City, er það þó afskekkt að drengnum tókst ekki að finna neinn veg og áttaði hann sig á því að hann væri einn og yfirgefinn. Drengurinn dó þó ekki ráðalaus, náði sér í drykkjarvatn úr nærliggjandi á og reyndi að veiða fiska með spjóti sem hann útbjó úr trjágrein.

Leitarmenn hófu leit að Malachi en hún gekk illa vegna þess hve þétt skóglendið er á svæðinu. Þegar nótt fór að halla lækkaði hitastigið en drengurinn bjargaði sér með því að klæða bol sinn um lappirnar á sér og hjúfra sig upp að steinum sem enn voru volgir eftir heitan sólardag.

Það kom honum í gegnum nóttina og þegar sólin reis á ný heyrði Malachi í þyrlu, kom hann sér á opið svæði þar sem björgunarmenn gátu séð hann og eftir erfiða nótt í óbyggðum komst Malachi í faðm fjölskyldu sinnar sem farin var að örvænta.

Aðspurður sagðist Malachi ekki láta ætla að láta þetta stoppa sig í að fara í útilegur en hann myndi þó láta sér þetta að kenningu verða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×