Erlent

Gæti hitnað undir flóknu samspili viðskipta- og stjórnmálalífs í Kína

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir skrifar
Hlutabréf héldu áfram að falla í Kína í dag en tóku við sér víðast hvar annars staðar eftir að Seðlabanki Kína hækkaði stýrivexti.

„Kína er ólíkindatól og svakaleg vél,“ segir Ársæll Harðarson formaður Íslensk/Kínverska viðskiptaráðsins. Hann segir að menn hafi búist við þessum hósta.

„Það voru margir búnir að spá því að þessi hlutabréfahækkun sem varð á síðasta ári, myndi ganga til baka. Það hefur hún gert. Það liggur alveg fyrir að að hagvöxturinn hefur verið meira drifinn af fjárfestingum en neyslu. Nú hægir á fjárfestingum og þá þurfa Kínverjar að snúa sér að því að auka neyslu heima fyrir. Og ég spái því að áhrifin verði ekki svo mikil hér, en meiri í nágrannaríkjum Kína sem hafa verið að selja Kínverjum vörur og hráefni inn í þennan mikla hagvöxt og eins í nýmarkaðsríkjunum sem áttu að draga hagvöxtinn á næstu árum.“

Magnús Björnsson, forstöðumaður Konfúsíusarstofnunarinnar
Gæti aukið þrýsting á stjórnvöld

Magnús Björnsson, forstöðumaður Konfúsíusarstofnunarinnar, segir að falli Kína hafi verið spáð í 20 ár en stjórnvöld hafi náð að redda sér til þessa. Hann segir að fólk í Kína sé óttaslegið við þessa þróun og viti ekki hvert hún leiði. Fallið á hlutabréfamarkaði komi ekki beint við venjulegt fólk, það hafi ekki verið að fjárfesta á hlutabréfamarkaði, líkt og til dæmis á Vesturlöndum.

Hann bendir á að flókið samspil stjórnmála og viðskiptalífs í Kína byggi á þögulu samkomulagi um að stjórnvöld hafi tök á efnahagsmálunum. Ef það fari að halla undan fæti í efnahagslífinu, skapist misræmi milli væntinga fólks og umboðs stjórnvalda sem byggi á kröftugum efnahag.

Ef efnahagsástandið versnar gæti það aukið þrýsting á breytingar í stjórn landsins með ófyrirséðum afleiðingum. Hann bendir á að ástandið sé stjórnvöldum kannski ofviða núna, kerfið sé orðið mjög flókið og einkaskuldir hafi vaxið mjög mikið. Upplausnarástand í Kína, gæti þó haft áhrif á efnahagslíf í öllum heiminum og jafnvel stjórnmálaástandið líka.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×