Erlent

Krefjast skaðabóta

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Umdeild auglýsing Danska þjóðflokksins var birt árið 2013.
Umdeild auglýsing Danska þjóðflokksins var birt árið 2013. nordicphotos/getty
Søren Espersen, varaformaður Danska þjóðarflokksins, segir tilganginn hafa helgað meðalið þegar umdeild auglýsing frá flokknum var birt árið 2013.

„Einn á listanum er hættulegur öryggi Danmerkur – nú verður hann danskur ríkisborgari,“ stóð í auglýsingunni og jafnframt var birtur listi yfir nöfn 700 einstaklinga, sem danska þingið var í þann veginn að fara að veita ríkisborgararétt.

Auglýsingin vakti hörð viðbrögð og er nú til umfjöllunar hjá dönskum dómstólum. Fimmtán manns, sem voru á þessum lista, krefjast skaðabóta, tíu þúsund danskra króna hver, eða tæplega 200 þúsund íslenskra.

„Ég er á leitarvélum á lista yfir hugsanlega hryðjuverkamenn,“ segir Aladdin Bouhania, einn þeirra 700 sem nefndir voru í auglýsingunni. Í viðtali við danska ríkisútvarpið segist hann hræddur við að ferðast úr landi: „Ég er hræddur við að verða stöðvaður sem hryðjuverkamaður.“

Espersen mætti fyrir dómstól í Kaupmannahöfn í gær sem vitni í málinu. Hann sagði tilganginn með auglýsingunni hafa verið þann að vekja umræður, en vildi ekki taka afstöðu til þess hvort rétt hafi verið að fara þessa leið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×