Erlent

Fílsunga bjargað úr brunni – Myndband

Samúel Karl Ólason skrifar
Fílsunga var bjargað úr tíu metra djúpum brunni í Indlandi í gær. Fíllinn hafði fallið ofan í brunninn þegar hjörð hans fór um svæðið um nóttina og varð hann viðskila við móður sína.

Á indverska miðlinum International Business Times segir þorpsbúar hafi orðið varir við köll ungans um morguninn. Um 25 þeirra ætluðu að reyna að ná unganum upp en embættismenn hleyptu þeim ekki að. Þess í stað var grafa fengin á vettvang sem notuð var til að gera unganum kleift að skríða upp úr brunninum.

Hundruð þorpsbúa fylgdust með aðförunum. Þegar unginn komst upp gerði hann sig líklegan til að ráðast á fólk sem horfði á. Embættismenn segja að unganum hafi ekki orðið meint af og að hann hafi verið fluttur aftur til hjarðarinnar sem hann varð viðskila við um nóttina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×