Erlent

Kóreuskagi á barmi styrjaldar

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Suðurkóreskir hermenn eru viðbúnir stríði. Yfirvöld í Suður-Kóreu hafa heitið því að svara öllum árásum af fullum krafti.
Suðurkóreskir hermenn eru viðbúnir stríði. Yfirvöld í Suður-Kóreu hafa heitið því að svara öllum árásum af fullum krafti. Fréttablaðið/AFP
Um fimmtán þúsund íbúar Suður-Kóreu hafa verið fluttir frá heimilum sínum við landamæri Norður-Kóreu vegna árása stórskotaliðs Norður-Kóreuhers yfir landamærin. Margir íbúanna dvelja í loftvarnarbyrgjum.

Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, fyrirskipaði hernum að koma sér í viðbragðsstöðu á föstudaginn ef til stríðs kæmi. Kim Hyun Joon, sendiherra Norður-Kóreu í Rússlandi, sagði í samtali við Russia Today að Suður-Kórea og Bandaríkin bæru ábyrgð á eldfimu ástandi á skaganum. „Kóreuskagi er á barmi stríðs vegna óendanlegra pólitískra og hernaðarlegra ögrana,“ sagði hann, en Bandaríkin og Suður-Kórea eru með heræfingar í gangi til 28. ágúst.

Norður- og Suður-Kóreumenn ásaka hvorir aðra um að hafa hafið stórskotaárásir síðastliðinn föstudag. Tæknilega séð eru ríkin tvö í stríði eftir Kóreustríðið 1950 til 1953. Eftir að þeim stríðsátökum lauk var samið um vopnahlé en ekki stríðslok.

Norður-Kóreumenn eru Suður-Kóreumönnum reiðir vegna hátalarakerfis sem varpar áróðursskilaboðum yfir landamærin til norðurs. Friðarviðræður milli ríkjanna hófust á laugar­daginn en krafa Norður-Kóreu eru að áróðurskerfið verði tekið niður. Viðræðurnar virðast engan enda ætla að taka.

Áróðurinn er hluti af sálfræðihernaði gegn Norður-Kóreu en í hátölurunum eru spilaðar fréttir af umheiminum sem hermenn og íbúar á landamærunum heyra.

Sérfræðingar innan suðurkóreska hersins telja að ef friðarviðræður gangi ekki upp muni Norður-Kórea beina árásum sínum á hátalarakerfin sjálf. Suður-Kórea hefur heitið því að svara árásum af fullum krafti.

Norður-Kóreumenn hafa tvöfaldað stórskotahríð sína yfir landamærin og gangsett kafbátaflota sinn í Gulahafi. Fimmtíu kafbátar lögðu af stað úr höfn um helgina.

Þá hafa Suður-Kóreumenn sakað nágranna sína í norðri um að hafa lagt jarðsprengjur við landamærin en talsmenn norðurkóreska hersins hafna þeim ásökunum.

Suðurkóreskar og bandarískar orrustuþotur sinna eftirliti með landamærunum við Norður-Kóreu. Bandaríkjaher er með 28 þúsund hermenn staðsetta í Suður-Kóreu en Bandaríkin sjá um eftirlit með því að friður haldist á skaganum fyrir hönd Sameinuðu þjóðanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×