Innlent

Kettir björguðu lífi ungra mæðgna í bruna í Reykjanesbæ

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hilmar Bragi Bárðarson, fréttastjóri Víkurfrétta, var fljótur á vettvang og náði myndum af björgunaraðgerðum lögreglu.
Hilmar Bragi Bárðarson, fréttastjóri Víkurfrétta, var fljótur á vettvang og náði myndum af björgunaraðgerðum lögreglu. Mynd/Víkurfréttir
Lögreglumönnum á Suðurnesjum tókst að bjarga lífi tveggja líflausra katta eftir að eldur kom upp í fjölbýlishúsi á Ásbrú á Reykjanesi í morgun. Skömmu áður höfðu kettirnir komið eigendum sínum, mæðgum í íbúð á jarðhæð hússins, til bjargar. Ótrúleg atburðarás en sem betur fer virðast allir hafa sloppið með skrekkinn.

Víkurfréttir greindu fyrst frá málinu í morgun en lögreglunni barst tilkynning um eldinn um stundarfjórðung fyrir klukkan tíu í morgun. Sigvaldi Arnar Lárusson, varðstjóri hjá Lögreglustjóranum á Suðurnesjum, var fyrstur á vettvang. Þá voru mæðgurnar komnar út úr íbúðinni en eldurinn logaði. Þær höfðu verið sofandi í svefnherberginu þegar eldurinn kom upp.

„Kettirnir hafa bjargað ungu mæðgunum,“ segir Sigvaldi í samtali við Vísi. Í einu herbergi íbúðarinnar sé gluggi sem kettirnir ganga inn og út um. Í þetta skiptið hafi hins vegar annar kötturinn byrjað að krafsa í svefnherbergishurðina þar sem móðirin var með sofandi dóttur sína.

Sigvaldi Arnar Lárusson.
„Mamman opnar hurðina og sér hvað er í gangi. Þá var kominn mikill reykur og eldur í íbúðinni. Hún nær að taka dóttur sína og fara út um svaladyrnar. Þær hlaupa þar út,“ segir Sigvaldi sem var mættur á vettvang skömmu síðar.

Þrír kettir voru í íbúðinni og fór fjölskyldufaðirinn beina leið með einn þeirra á dýraspítala. Sigvaldi tók við hinum tveimur.

„Kettirnir voru alveg líflausir,“ segir Sigvaldi. „Það var bara farið í það sem er kennt í lögregluskólanum, endurlífgun.“

Alltaf ánægjulegt

Endurlífgunin gekk fullkomlega upp en það er ekki á hverjum degi sem lögreglumenn eru í því hlutverki að koma dýrum til bjargar á þennan hátt. Í tilfelli Sigvalda var þetta í fyrsta skipti. Aðferðin hafi verið sú sama og í raun ekki ósvipað og ef um lítið barn hefði verið að ræða.

„Það er alltaf ánægjulegt þegar þetta tekst.“

Greiðlega gekk að slökkva eldinn en eldsupptök eru ókunn og í rannsókn hjá lögreglu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×