Erlent

Uppstokkun á Spáni

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Pablo Iglesias, leiðtogi Podemos, á kosningafundi í Galisíu á miðvikudaginn var.
Pablo Iglesias, leiðtogi Podemos, á kosningafundi í Galisíu á miðvikudaginn var. vísir/epa
Sigurvegarar þingkosninganna á Spáni verða nýju flokkarnir tveir, Podemos og Borgaraflokkurinn, ef marka má skoðanakannanir.

Hinum hægrisinnaða Þjóðarflokki forsætisráðherrans Mariano Rajoy er ekki spáð nema fjórðungi atkvæða, og gamli höfuðandstæðingurinn, Sósíalistaflokkurinn, virðist ekki ætla að fá nema fimmtung atkvæða.

Saman voru þessir tveir gömlu flokkar yfirleitt með 70 til 80 prósent atkvæða, en súpa nú seyðið af mikilli óánægju fólks vegna kreppunnar á Spáni, sem þar hefur bitnað illa á almenningi árum saman.

Pablo Iglesias, sem stofnaði Podemos-hreyfinguna haustið 2014, virðist reyndar ekki ætla að ná þeim þriðjungi atkvæða sem lengi vel stefndi í. Skoðanakannanir sýna fimmtung, sem dugar Iglesias vel til þess að ná lykilstöðu í spænskum stjórnmálum.

Nafn flokksins þýðir „Við getum“ og þar er greinilega verið að vísa til slagorðs Baracks Obama, „Yes, we can!“

Langvarandi efnahagserfiðleikar Spánverja í kjölfar kreppunnar 2008 hafa hrært upp í stjórnmálunum. Gömlu flokkarnir eiga ekki upp á pallborðið, hvorki hægriflokkur forsætisráðherrans, sem sigraði með yfirburðum í síðustu kosningum, árið 2011, né Sósíalistaflokkurinn sem var við völd þegar kreppan reið yfir.

Flokkurinn hefur barist gegn niðurskurði og aðhaldsaðgerðum ríkisins, ekki ósvipað SYRIZA-bandalaginu á Grikklandi.

Atvinnuleysi á Spáni er enn rúmlega 20 prósent og hefur ástandið skánað hægt frá því það var í hámarki í 27 prósentum árið 2013.

Annar tiltölulega nýr flokkur virðist sömuleiðis á góðri siglingu. Þetta er Borgaraflokkurinn, sem er tíu ára gamall flokkur frjálslyndra umbótasinna á vinstri kantinum sem styðja Evrópusambandið og eru andvígir þjóðernishreyfingum í Katalóníu og víðar.

Flokkurinn var upphaflega aðeins virkur í Katalóníu, en náði fljótt vinsældum á landsvísu eftir að ákveðið var að bjóða fram í öllum kjördæmum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×