Erlent

Grunaðir hryðjuverkamenn handteknir í Genf

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Oliver Jornot greindi blaðamönnum frá handtökunum í dag.
Oliver Jornot greindi blaðamönnum frá handtökunum í dag. vísir/getty
Svissneska lögreglan handtók í dag tvo Sýrlendinga í Genf vegna gruns um tengsl þeirra við hópa róttækra íslamista. Í bíl mannanna fundust agnir af efni sem grunur leikur á að hafi verið notað til sprengjugerðar.

Þeir voru stöðvaðir við eftirlit í gær á vegi sem liggur inn í Genf. Saksóknari í borginni tilkynnti um málið á blaðamannafundi í dag og nýtti tækifærið til að blása á sögusagnir þess efnis að eitraðar gastegundir hafi fundist í bíl mannanna.

Mennirnir hafa nú þegar verið ákærðir fyrir flutning og framleiðslu á sprengiefnum, sem og á grundvelli laga sem banna „hópa eins og al-Qaeda, Íslamska ríkið og sambærileg félög,“ að sögn saksóknarans Oliver Jornot.

Hann sagði á fundinum í dag að mennirnir tveir töluðu ekki frönsku og hefðu ferðast um á sýrlenskum vegabréfum. Þeir voru nýkomnir til landsins þegar lögreglan hafði hendur í hári þeirra.

Grunsamlegur bíll stakk lögreglu af

Búist er við fleiri handtökum í landinu á næstunni en öryggisstigið var hækkað í borgum nærri landamærum Frakklands. Það er nú á þriðja stigi af fimm og hefur verið fjölgað í liði lögreglunnar í Genf vegna þessa.

Í borginni eru fjölmörg mannvirki sem talin eru geta verið skotmörk hryðjuverkamanna, svo sem höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna í Evrópu, Rauði krossinn og fjöldi alþjóðlegra banka. Tilkynnt var um auknu öryggiskröfurnar eftir að grunsamlegri bifreið, sem skráð var í Belgíu, var ekið á ofsahraða undan lögreglunni og yfir landamærin til Frakklands.

Meira um málið má lesa á vef The Telegraph.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×