Erlent

Rússar sagðir hafa fellt fjölda borgara í loftárásum

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá störfum björgunarmanna í Idlib.
Frá störfum björgunarmanna í Idlib. Vísir/AFP
Mikill fjöldi almennra borgar féll í loftárásum á borgina Idlib í Sýrlandi í gær. Talið er að Rússar hafi gert árásirnar, en björgunarmenn segja að minnst sex árásir hafi verið gerðar markað í miðborg Idlib. Minnst 70 eru sagðir vera látnir og rúmlega 150 særðir.

Björgunarmaður sem ræddi við fréttamenn Reuters segir að enn sé verið að ná líkum úr rústunum.

Frá því að Rússar hófu aðgerðir sínar í Sýrlandi í lok september hafa þeir og sýrlenski herinn, verið sakaðir um að hafa valdið miklu mannfalli með loftárásum á borgaraleg skotmörk, langt frá víglínum í landinu.

Mannréttindasamtökin Human Rights Watch sökuðu í gær Rússa og stjórnarherinn um að nota klasasprengjur í Sýrlandi. Fjölmörg lönd hafa skrifað undir sáttmála um að banna notkun klasasprengja, sem dreifa smærri sprengjum yfir stórt svæði. Sumar þessara litlu sprengja springa þó ekki og geta skaðað almenna borgara árum seinna.

Hægt er að sjá yfirlit yfir hverjir hafa skrifað undir sáttmálann hér.

AFP fréttaveitan fjallaði um ásakanir HRW, en mannréttindasamtökin segjast vita um 20 tilvik þar sem klasasprengjum hefur verið varpað yfir sýrlandi. Þá hafa samtökin safnað upplýsingum um níu af þeim árásum og segja minnst 35 borgara hafa fallið í þeim. Þar af fimm konur og 17 börn.

Þá hefur stjórnarherinn í Sýrlandi margsinnis verið sakaður um að varpa svokölluðum tunnusprengjum á borgir og bæi. Tunnusprengjur eru í raun tunnur sem fylltar eru af sprengiefni og hlutum eins og nöglum og kúlulegum, sem mynda sprengjubrot, og er þeim varpað úr þyrlum. Notkun þeirra hefur margsinnis verið skrásett.

Rúmlega 250 þúsund manns hafa fallið í átökum frá því borgarastyrjöldin hóst í Sýrlandi í mars 2011. Milljónir hafa yfirgefið heimili sín og Sýrland vegna átakanna.

>/center>



Fleiri fréttir

Sjá meira


×