Erlent

Sendiherra Noregs í Pakistan lést í þyrluslysi

Samúel Karl Ólason skrifar
Pakistanskir hermenn standa vörð við þyrlu sem notuð var til að flytja slasaða á sjúkrahús.
Pakistanskir hermenn standa vörð við þyrlu sem notuð var til að flytja slasaða á sjúkrahús. Vísir/AFP
Sendiherra Noregs í Pakistan, Leif H. Larsen, er sagður hafa látið lífið í þyrluslysi þar í landi. Talsmaður hersins í Pakistan segir að sendiherra Filippseyja hafi einnig látið lífið, en minnst sex létu lífið þegar þyrla brotlenti á skóla.

Sendiherrar Póllands og Hollands eru sagðir slasaðir. Á vef NRK segir talsmaður utanríkisráðuneytisins í Noregi að yfirvöld þar reyni nú að staðfesta andlát sendiherrans.

Diplómatar frá 37 löndum voru á ferðinni með Nawas Sharif, forsætisráðherra Pakistan, en þau voru á leið til hátíðlegrar opnunar ferðamannastaðs í Gilgit héraði í Norður-Pakistan. Á vef BBC segir að eiginkonur sendiherra Indónesíu og Malasíu hafi einnig látið lífið í slysinu.

AFP fréttaveitan segir að börn hafi verið í skólanum þegar þyrlan brotlenti þar og kviknaði mikill eldur við slysið. Líklegt þykir að tala látinna muni hækka. Í þyrlunni voru sendiherrar frá Indónesíu, Líbanon, Malasíu, Hollandi, Rúmeníu, Noregi, Suður Afríku, Filippseyjum og Póllandi.

Herinn flutti slasaða á hersjúkrahús.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×