Fótbolti

Umfjöllun, viðtöl og myndir: Ísland - Slóvakía 4-1 | Góður sigur en stelpurnar geta betur

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Harpa Þorsteinsdóttir í baráttunni í kvöld.
Harpa Þorsteinsdóttir í baráttunni í kvöld. vísir/anton
Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta vann auðveldan sigur á Slóvakíu, 4-1, í vináttuleik á Laugardalsvelli í kvöld, en leikurinn var generalprufa fyrir fyrsta leik liðsins í undankeppni EM 2017 á þriðjudagskvöldið.

Þó sigurinn hafi verið auðveldur á endanum er ýmislegt sem Freyr Alexandersson, landsliðsþjálfari, þarf að skerpa á fyrir leikinn gegn Hvíta-Rússlandi í næstu viku.

Stelpurnar byrjuðu frábærlega, en Sandra María Jessen, leikmaður Þórs/KA, kom Íslandi yfir með föstu skoti úr teignum á fjórðu mínútu leiksins.

Fanndís Friðriksdóttir, markadrottning Pepsi-deildarinnar í ár, átti þó allan heiðurinn af því marki. Hún elti upp vinstri bakvörð Slóvakana, hirti af henni boltann, straujaði inn á teiginn og gaf fyrir markið. Fanndís í fantaformi eins og allir vita.

Sandra María fékk annað dauðafæri skömmu síðar og Harpa Þorsteinsdóttir, markavélin úr Stjörnunni, fékk einnig dauðfæri ein á móti markverði en skaut framhjá.

Eftir það gerðist ekki mikið meira hjá íslenska liðinu í fyrri hálfleik. Stelpurnar tóku fótinn af bensíngjöfinni og hleyptu slóvakíska liðinu inn í leikinn sem var algjör óþarfi.

Aftur komu okkar stelpur sterkar til leiks í byrjun seinni hálfleiks, en það tók varamanninn Hólmfríði Magnúsdóttur aðeins 48 sekúndur að skora þegar flautað var til leiks í seinni hálfleik, 2-0.

Eins og í fyrri hálfleik róuðu stelpurnar leik sinn mikið niður og mátti augljóslega greina kæruleysi í spilamennsku liðsins á köflum. Sendingar inn á miðjunni voru slæmar og langt var á milli varnarmanna og miðjumanna.

Slóvakar nýttu sér slæman kafla íslenska liðsins til að minnka muninn, 2-1, á 54. mínútu, með skoti fyrir utan teig, en þremur mínútum síðar skoraði Margrét Lára Viaðrsdóttir 72. landsliðsmark sitt í 99. landsleiknum úr vítaspyrnu.

Hólmfríður Magnúsdóttir kórónaði frábæra innkomu sína með skallamarki af 35 metra færi, 4-1, á 75. mínútu. Markvörður Slóvaka kom út í teiginn til að hirða upp skalla Hólmfríðar en lét boltann skoppa yfir sig og inn. Frekar klaufalegt en fjórða markið staðreynd og lokatölur, 4-1.

Góður sigur hjá stelpunum og flott veganesti inn í alvöruna á þriðjudaginn, en værukærðin sem kom upp í liðinu á köflum í leiknum er eitthvað sem þarf að skoða fyrir undankeppnina. Betra lið en Slóvakía hefði refsað með fleiri mörkum í dag.

Hólmfríður Magnúsdóttir átti glæsilega innkomu í dag og miðverðirnir; Glódís Perla Viggósdóttir og Anna Björk Kristjánsdóttir, stigu vart feilspor. Þá var Fanndís virkilega spræk á hægri kantinum.

Áhorfendur í kvöld voru rétt tæplega 800 og er vonandi að fleiri láti sjái sig þegar alvaran hefst á þriðjudagskvöldið gegn Hvíta-Rússlandi.

Freyr: Eiga allar örlítið meira inni

„Á köflum var ég ánægður í kvöld en það komu slæmir kaflar inn á milli,“ sagði Freyr Alexandersson, landsliðsþjálfari kvenna í fótbolta, við Vísi eftir 4-1 sigur liðsins á Slóvakíu í vináttuleik á Laugardalsvelli í kvöld.

Íslenska liðið byrjaði leikinn mjög vel í fyrri og seinni hálfleik og skoraði snemma en inn á milli komu langir slæmir kaflar þar sem liðið var ekki að spila vel.

„Ég hefði viljað fylgja fyrsta markinu betur eftir. Fyrstu 20 mínúturnar í fyrri hálfleik voru fínar en seinni 25 ekkert sérstakar,“ sagði Freyr, en hvað veldur?

„Það var bæði ryð og annað. Við náðum ekki að halda boltanum nógu vel en við fórum fínar leiðir. Það vantaði bara meira frumkvæði og hugrekki. Ég hef samt engar áhyggjur af þessu. Þetta verður allt í toppstandi á þriðjudaginn.“

Hann var ánægður með karakterinn í liðinu að skora strax eftir að fá á sig mark í stöðunni 2-0.

„Það vantar ekkert upp á karakterinn í þessum hópi. Þetta voru góð mörk og það var sterkt að skora eftir að fá á sig mark og klár þetta. Þetta var flott frammistaða, en allir leikmennirnir eiga örlítið meira inni,“ sagði Freyr.

Hvað var það jákvæða í leiknum að mati þjálfarans? „Fjögur mörk og nokkuð gott uppspil á köflum. Líka það að nú erum við búin að spila fyrsta leikinn saman og ættum að vera betur undirbúin fyrir erfiðari leik gegn Hvíta-Rússlandi á þriðjudaginn,“ sagði Freyr Alexandersson.

Guðbjörg Gunnarsdóttir, markvörður íslenska landsliðsins.Vísir/Valli
Guðbjörg: Jákvæðir og neikvæðir punktar

„Það eru jákvæðir og neikvæðir punktar, við áttum marga góða kafla, sérstaklega fyrstu 25 mínúturnar þegar við vorum að æfa hápressuna,“ sagði Guðbjörg Gunnarsdóttir, markvörður íslenska landsliðsins, hreinskilin eftir leikinn í kvöld.

„Þegar við hættum hápressunni í fyrri hálfleik þá kom slakur 20 mínútna kafli. Það sama var upp á teningunum í seinni, við spiluðum vel á meðan við beittum hápressu en spilamennskan datt niður þegar við hættum því.“

Guðbjörg segir að það hafi verið markmiðið með landsleiknum að komast að því hvernig lið myndu bregðast við breytingum á áherslu liðsins.

„Planið var að æfa þetta, bæði há- og lágpressu og við þurftum æfingarleik til að prófa þetta. Við fengum svör í kvöld því við litum mun betur út í hápressunni. Við sáum nokkra veikleika sem við getum vonandi lagað fyrir næsta leik.“

Guðbjörg sagðist vera ánægð að sjá að varamennirnir komu inn með aukinn kraft.

„Eftir að við skorum markið slökknar eitthvað á okkur en við þurfum að halda áfram í þeirri stöðu. Það fengu margir leikmenn að spila hér í kvöld og við sáum að við gátum spilað á mörgum leikmönnum og að spilamennskan mun ekki versna sama hver kemur inná.“

SaraVísir/Stefán
Sara: Óþarfi að gefa þeim marktækifæri

„Ég er ánægð með sigurinn en ég veit að við getum spilað betur,“ sagði Sara Björk Gunnarsdóttir, varafyrirliði íslenska landsliðsins, eftir 4-1 sigur Íslands á Slóvakíu í kvöld.

„Á köflum spiluðum við vel en á köflum spiluðum við ekki nægilega vel. Heilt yfir vorum við að stýra leiknum allan tímann en við vorum að gefa þeim nokkur marktækifæri sem mér fannst óþarfi og við þurfum að gæta betur upp á fyrir leikinn á þriðjudaginn.“

Sara sagði að liðið mætti ekki detta jafn langt aftur þegar þær væru án boltans.

„Við vorum ekki nægilega nálægt hvor annari þegar við misstum boltann, í stað þess að reyna strax að vinna boltann aftur þá duttum við full langt aftur fannst mér. Við þurfum að fara betur yfir pressu liðsins,“ sagði Sara sem sá fullt af jákvæðum punktum í leik liðsins.

„Flæðið í leiknum okkar var mjög gott, við fórum yfir uppspilið á æfingum og það heppnaðist mjög vel á köflum í kvöld, við þurfum bara að laga einhverja smáhluti fyrir leikinn gegn Hvít-Rússum.“

Fanndís var öflug í leiknum í kvöld.Vísir/Anton
Fanndís:Gátum gert betur en unnum samt 4-1

„Þetta var sannfærandi sigur og við vorum betra liðið en við gátum gert betur,“ sagði Fanndís Friðriksdóttir, einn besti leikmaður vallarins, eftir leikinn.

„Þetta var mjög sveiflukennt, við vorum mjög góðar og svo vorum við ekki nægilega góðar. Við ætluðum að hápressa þær strax í byrjun og við uppskárum mark úr því sem var mjög jákvætt.“

Fanndís sagðist ekki kunna skýringu á því afhverju spilamennskan var jafn sveiflukennd og raun bar vitni.

„Ég veit ekki alveg, við duttum úr gírnum sem við byrjuðum í og við reyndum að skerpa á því í hálfleiknum. Við ætluðum að bæta upp fyrir það í seinni og vera stöðugari og það gekk ágætlega, við fengum mark strax í upphafi.“

Fanndís sagði jákvætt að fá einn sigurleik áður en undankeppnin hæfist í næstu viku.

„Að vinna leikinn var frábært, við gátum gert betur en unnum samt 4-1. Það gefur okkur ákveðið sjálfstraust fyrir þriðjudaginn og við þurfum bara að bæta úr þessum lélegu köflum, þar á meðal ég,“ sagði Fanndís.



vísir/anton
vísir/anton
Margrét Lára í varnarstöðu, en hún skoraði 72. markið sitt í 99. landsleiknum í kvöld.vísir/anton
vísir/anton
vísir/anton



Fleiri fréttir

Sjá meira


×