Erlent

Þúsundir pílagríma í Betlehem

Heimir Már Pétursson skrifar
Þúsundir kristinna pílagríma verða í Betlehem, fæðingarbæ Jesú Krists, yfir jólin. Palestínskum stjórnvöldum er mikið í mun að efla ferðamennsku á svæðinu og því er allt gert til að tryggja öryggi í borginni yfir hátíðarnar.

Um 25 þúsund manns búa í bænum Betlehem sem Biblían kennir að þar hafi María mey alið Jesú Krist í jötu. Bærinn tilheyrir nú Vesturbakkanum þar sem Palestínumenn fara með völd en mikil spenna hefur ríkt þar árum saman vegna ágangs ísraelskra landtökumanna og undanfarna mánuði hefur verið mikið af manndrápum á báða bóga.

Um sjö þúsund kristnir pílagrímar eru í borginni í dag til að heimsækja staðinn þar sem sagan segir að fjárhúsin þar sem Jesú kom í heiminn hafi staðið sem er einn helgasti staður kristinna manna.

Palestínsk stjórnvöld reyna allt til að auka ferðamennsku til Vesturbakkans og þá ekki hvað síst til Betlehem og því er mikið lagt upp úr að tryggja öryggi ferðamannanna. En tuttugu Ísraelar og Bandaríkjamenn hafa verið myrtir í hnífaárásum eða ákeyrslum á svæðinu á undanförnum mánuðum. Ísraelsk öryggislögregla hefur drepið 120 Palestínumenn sem sagðir eru hafa staðið að þessum árásum.

Borgarstjórinn segir borgina hins vegar tilbúna til að taka á kristnum pílagrímum yfir jólin og borgin skarti sínu fegursta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×