Erlent

Kanna lögmæti stuðnings við ferjurekstur

Óli Kristján Ármannsson skrifar
ESA hefur til rannsóknar mögulega markaðsmisnotkun tengda ferjustarfsemi í Noregi.
ESA hefur til rannsóknar mögulega markaðsmisnotkun tengda ferjustarfsemi í Noregi. Fréttablaðið/EPA
ESA, eftirlitsstofnun EFTA, hefur hafið rannsókn á sveitarfélaginu Sandefjord í Noregi og norska skipafélaginu Color Line vegna mögulegrar einokunar í farþegaflutningum. Stuðningur sveitarfélagsins við skipafélagið er í tilkynningu ESA sagður kunna að brjóta í bága við samkeppnisreglur á Evrópska efnahagssvæðinu.

„Color Line rekur farþegaferju með fríverslun milli Sandefjord í Noregi og Strömstad í Svíþjóð. Sveitarfélagið Sandefjord á og rekur höfnina í Sandefjord og hefur samið við Color Line um aðgang félagsins að höfninni,“ segir í samantekt ESA.

Stofnunin muni kanna sérstaklega hvort samkomulagið hafi komið niður á samkeppni með misnotkun markaðsráðandi stöðu, hvort heldur sem það snúi að viðskiptavinum sem nýta vilji ferjuflutninga, eða þjónustu sveitarfélagsins við ferjufyrirtæki.

ESA hefur áður haft afskipti af skipafélaginu sem það sektaði um 18,8 milljónir evra (2,8 milljarða króna) í desember 2011, fyrir brot gegn samkeppnisreglum EES vegna langtíma einokunarsamninga um hafnaraðgang í Strömstad í Svíþjóð.

„Samningar Color Line og sveitarfélagsins Sandefjord sem nú eru til rannsóknar voru ekki undir í þeirri ákvörðun,“ segir í tilkynningu ESA.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×