Erlent

Saka sjómann um mannát eftir skipbrot

Atli Ísleifsson skrifar
Ótrúleg saga skipbrotsmannsins Jose Salvador Alverenga komst í heimsfréttirnar á síðasta ári.
Ótrúleg saga skipbrotsmannsins Jose Salvador Alverenga komst í heimsfréttirnar á síðasta ári. Vísir/AFP
Sjómaður frá El Salvador sem lifði af eftir að hafa rekið um á báti og dvalið á eyðieyju í Kyrrahafi í á annað ár, hefur verið sakaður um mannát af fjölskyldu látins skipsfélaga síns.

Ótrúleg saga skipbrotsmannsins Jose Salvador Alverenga komst í heimsfréttirnar á síðasta ári eftir að hann fannst á Marshall-eyjum í lok janúar 2014 og efuðust margir um frásögn hans.

Alvarenga og 22 ára skipsfélagi hans lögðu frá bryggju í Mexíkó í lok árs 2012 þegar þeir héldu á hákarlaveiðar. Mikið óveður skall þá á og rak þá á haf út. Að sögn Alvarenga lifðu þeir af með því að nærast á hráum fiski, skjaldbökum og regnvatni.

Rúmum tveimur mánuðum síðar veiktist skipsfélagi Alvarenga og lést. Alvarenga segist hafa varpað líkinu frá borði nokkrum dögum síðar. Bátinn rak loks á land á afskekktu hringrifi nærri Marshall-eyjum þar sem sjómenn fundu hann í janúar 2014.

Saga Alvarenga vakti skiljanlega heimsathygli og kom bók út með frásögn hans í haust. Fljótlega eftir útgáfu bókarinnar, sem ber titilinn 438 dagar, kærði fjölskylda hins látna skipsfélaga Alvarenga og fara fram á greiðslu milljón Bandaríkjadala.

Sakar fjölskylda skipsfélagans Alvarenga um mannát, en hann hefur sjálfur neitað slíkum ásökunum.

Ricardo Cucalon, lögmaður Alvarenga, segir að fjölskylda skipsfélagans hafi kært Alverenga til að fá hluta af hagnaði sölunnar á bókinni.


Tengdar fréttir

Saga Alvarenga stenst

Bandarísk rannsókn staðfestir ótrúlega sögu Jose Salvador Alverenga, skipbrotsmannsins sem hafði rekið um kyrrahafið í þrettán mánuði. Hann kom að landi á Marshall-eyjum í lok janúar en margir hafa efast um frásögn hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×