Erlent

Fordæma rannsókn Alþjóðlega glæpadómstólsins

Samúel Karl Ólason skrifar
Átökin á Gasa stóðu yfir í fimmtíu daga í sumar og eyðileggingin var gífurleg.
Átökin á Gasa stóðu yfir í fimmtíu daga í sumar og eyðileggingin var gífurleg. Vísir/AFP
Stjórnvöld í Ísrael hafa fordæmt ákvörðun Alþjóðlega glæpadómstólsins um að kanna hvort að tilefni sé til rannsóknar á hugsanlegum stríðsglæpum Ísraelshers gegn Palestínumönnum. Ákvörðun ICC er sögð vera hneykslanleg.

Avigdor Lieberman, utanríkisráðherra Ísrael sagði ákvörðunina vera eingöngu til þess að draga úr rétti Ísraela til að verja sig gegn hryðjuverkum.

Hann sagði ákvörðina eingöngu byggða á fordómum gagnvart Ísrael og að hann myndi ráðleggja fólki að starfa ekki með rannsakendum.

Á vef Jerusalem Post segir að stjórnvöld Palestínu hafi beðið dómstólinn um að rannsaka nýjustu átökin á Gasa-svæðinu sem hófust þann 13. júní í sumar.

Í samtali við Al-Jazeera segir utanríkisráðherra Palestínu að næg tilefni séu til staðar fyrir rannsókn. Sérstaklega þar sem Ísraelsher hafi ráðist á borgara.

„Palestína er tilbúin til samstarfs, jafnvel þó að stríðsglæpir hafi verið framdir af okkar fólki,“ segir Ammar Hijazi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×