Innlent

RÚV var búið að kaupa lénið ras3.is: „Ég keypti bara lénið til að vera viss“

Birgir Olgeirsson skrifar
Ingólfur Bjarni Sigfússon, nýmiðlastjóri á RÚV.
Ingólfur Bjarni Sigfússon, nýmiðlastjóri á RÚV. Vísir/GVA
Þriggja manna nefnd hefur verið mynduð innan Ríkisútvarpsins um möguleika á Rás 3. Þá festi Ríkisútvarpið einnig kaup á léninu ras3.is en þó eru engar áætlanir innan RÚV að setja Rás 3 í loftið á næstunni.

Vísir sagði frá því fyrr í dag að RÚV ætlaði sér að setja Rás 3 í loftið og í kjölfarið barst tilkynnning frá Ingólfi Bjarna Sigfússyni, nýmiðlastjóra RÚV. Þar nefndi hann hvergi að ekki ætti að stofna Rás 3, hann sagði einungis að engar breytingar yrðu gerðar á útvarpsrekstri RÚV og að metnaður RÚV væri að tryggja landsmönnum öfluga dagskrá á Rás 1 og Rás 2 og nefndi einnig í því samhengi að hefja ætti útsendingar á netútvarpsstöðinni KrakkaRÚV.

Þegar hann var spurður nánar út í Rás 3 af Vísi fyrr í dag sagði hann engar endanlegar ákvarðanir hafa verið teknar um stöðina, hvort hún verði að veruleika eða þá hvenær hún mun fara í loftið en stöðin myndi þá verða á stafrænu formi, þ.e. verði ekki á bylgjulengd heldur aðgengileg í gegnum app og á vefsíðu RÚV.

Efast ekki um að umræðan um Rás 3 verði tekin aftur

Heimildir Vísis voru á pari við heimildir Nútímans sem sagði frá því í kjölfar fréttar Vísis að RÚV hefði tilkynnt starfsfólki sínu í síðustu viku að stofna ætti Rás 3. Nútíminn sagði einnig frá því að RÚV hefði fest kaup á léninu ras3.is í apríl síðastliðnum en engu að síður segir Ingólfur Bjarni Sigfússon að ekki standi til að setja Rás 3 í loftið á næstunni. Hann segir Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóra hafa greint starfsmönnum Ríkisútvarpsins frá hugmyndum um Rás 3 og KrakkaRÚV á starfsmannafundi í apríl síðastliðnum. 

Hann segir vissulega umræðu hafa átt sér stað innan RÚV um stofnun Rásar 3. Hún sé ekki ný af nálinni og nú hafi verið tekin enn ein umferðin á henni og í þetta skiptið hafi niðurstaðan orðið þessi, að stofna ekki stöðina. Hann efast ekki um að umræða um Rás 3 verði tekin upp aftur innan RÚV, hvort sem það verður eftir hálft ár, eitt ár eða tvö ár.

Keypti lénið til að vera viss

„Ég keypti bara lénið til að vera viss, ef niðurstaðan skyldi verða sú að: Jú, þetta væri málið, þá ættum við það inni,“ segir Ingólfur Bjarni. „Ég reyni að tryggja lén áður en fréttist að við séum að ræða eitthvað ef eitthvað skyldi verða úr, „better safe than sorry“. Lengi vel var það fjölskylda á Akranesi sem átti til dæmis lénið Kastljós.is og og ef þú slóst inn það lén þá fékkstu myndir úr myndasöfnunum þeirra,“ segir Ingólfur Bjarni.

Þriggja manna nefndin sem var skipuð um Rás 3 leiðir Frank Þórir Hall, dagskrárgerðarstjóri Rásar 2, en hinir tveir sem skipa nefndina eru Matthías Már Magnússon, útvarpsmaður á Rás 2, og Albert Finnbogason, tæknimaður á RÚV, en margir gætu kannast við hann sem einn af liðsmönnum hljómsveitarinnar Grísalappalísu.

Útvarpsstjóri og nýmiðlastjóri áttu frumkvæði af Rásar 3-nefndinni

Frank Þórir Hall sagði í samtali við Vísi fyrr í dag að nefndin hefði verið sett saman að frumkvæði Magnúsar Geirs Þórðarsonar útvarpsstjóra og Ingólfs Bjarna Sigfússonar nýmiðlastjóra. Hópurinn hafi fundað einu sinni og ekki liggi fyrir tímasetning næsta fundar.

Ingólfur segist ekki vita það með vissu hvort nefndin hafi verið lögð niður úr því að ekkert verður af stofnun Rásar 3. Hann segir Frank Þóri Hall stýra því.

Matthías Már hefur undanfarin ár haldið erindi fyrir háskólanema um Ríkisútvarp fyrir ungt fólk og hefur nefnt erindið Rás 3. Til að mynda mun hann flytja erindið fyrir nema úr Háskóla Íslands í hagnýtri menningarmiðlun þegar þeir sækja vikulangt námskeið hjá Ríkisútvarpinu á næstunni. Þegar Matthías Már var spurður út í þessa nefnd í dag af Vísi sagði hann að honum hefði verið tilkynnt að Ingólfur Bjarni væri sá sem ætti að tjá sig um Rás 3.

Uppfært klukka 21:48: Í upprunalegri útgáfu fréttarinnar var haft eftir Ingólfi Bjarna að enginn fundur hefði verið haldinn með starfsfólki RÚV þar sem því var tilkynnt um Rás 3. Það hefur verið leiðrétt þar sem Magnús Geir útvarpsstjóri greindi starfsfólkinu frá hugmyndum um Rás 3 á starfsmannafundi í apríl síðastliðnum. 




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×