Erlent

Hundruðum þúsunda kvenna nauðgað

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Í lok stríðsins. Sovéskir hermenn í Þýskalandi.
Í lok stríðsins. Sovéskir hermenn í Þýskalandi. NORDICPHOTOS/AFP
Það voru ekki bara sovéskir hermenn sem nauðguðu þýskum konum við lok seinni heimsstyrjaldarinnar og á tímanum þar á eftir, heldur einnig bandarískir. Þetta kemur fram í nýútkominni bók, Als die Soldaten kamen (Þegar hermennirnir komu), eftir þýska sagnfræðiprófessorinn og blaðamanninn Miriam Gebhardt.

Í viðtali við sænska blaðið Dagens Nyheter kveðst Gebhardt hafa fundið gögn í Bæjaralandi um nauðganir bandarískra hermanna. Það hafi vakið forvitni hennar þar sem áður hafi eingöngu verið skrifað um nauðganir hermanna í Rauða hernum. Bandaríkjamenn hafi hins vegar ekki bara verið frelsarar.

Gebhardt segir að í kalda stríðinu hafi nauðganir Rauða hersins verið notaðar í pólitískum tilgangi. Ekki hafi verið um að ræða samúð með konunum.

Það er mat sagnfræðiprófessorsins að um 860 þúsundum þýskra kvenna hafi verið nauðgað á fyrrgreindu tímabili. Mat hennar er byggt á vitneskjunni um þann fjölda barna sem þýskar konur eignuðust með hermönnunum og að fimm prósent þeirra hafi fæðst í kjölfar nauðgunar.

Að sögn Gebhardt var ekki um skipanir að ofan að ræða. Hún kveðst hafa fundið dæmi um harða dóma yfir hermönnum. Flestir hafi þó sloppið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×