Innlent

Rússneskar sprengjuvélar við Íslandsstrendur: Ekki flogið jafn nærri Íslandi frá brotthvarfi hersins

Stefán Árni Pálsson skrifar
Sambærileg vél og sást við Íslandsstrendur. Georg Lárusson sést hér til hægri.
Sambærileg vél og sást við Íslandsstrendur. Georg Lárusson sést hér til hægri. mynd/aðsend
Tvær langdrægar rússneskar sprengjuflugvélar af gerðinni Tupolev Tu-95 flugu inn í loftrýmiseftirlitssvæði NATO í nágrenni Íslands upp úr hádegi í gær. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni. Rússneskar herflugvélar hafa ekki flogið svo nærri landinu frá brotthvarfi bandaríska hersins, en sprengjuvélarnar flugu tvisvar framhjá landinu, í síðara skiptið mjög nálægt ströndum Íslands og voru þær í 26 sjómílna fjarlægð frá Stokksnesi þegar næst var.

Fylgst var með vélunum í loftvarnaeftirlitskerfi NATO hér á landi sem vinnur úr gögnum frá ratsjárkerfi sem Landhelgisgæslan rekur og staðsett er í hverjum landsfjórðungi. Vélarnar komu inn í loftrýmiseftirlitssvæðið austur af Íslandi og héldu í suðurátt að Bretlandi og Írlandi.

Þar voru þær auðkenndar af breskum orrustuþotum en stjórnstöð Landhelgisgæslunnar á Keflavíkurflugvelli (NATO Control and Reporting Center) hafði eftirlit með fluginu þann tíma sem vélarnar voru hér við land og tryggði flugöryggi í samvinnu við aðgerðastjórnstöð NATO (Combined Air Operation Center) í Uedem í Þýskalandi og flugleiðsögu Isavia.

Ratsjárstöðin sem Landhelgisgæslan rekur á Gunnólfsvíkurfjalli.mynd/aðsend
Vélarnar tvær sneru við síðdegis norður af Bretlandi og flugu sem leið lá aftur að Íslandi, meðfram suðurströnd Íslands og austur með landinu þar sem þær tóku beygju upp með Austurlandi og flugu loks aftur í norður í átt að Rússlandi.



Landhelgisgæslan sinnir daglegu loftrýmiseftirliti í samvinnu við NATO

Eftirlit Landhelgisgæslunnar með flugi rússnesku sprengjuflugvélanna er hluti af framkvæmd loftrýmiseftirlits og loftrýmisgæslu Atlantshafsbandalagsins sem Ísland er aðili að og á sér stað allt árið um kring.  Starfsmenn Landhelgisgæslunnar starfa í stjórnstöðinni í Keflavík og sinna eftirlitinu fyrir hönd Íslands.

„Landhelgisgæslan fylgist vel með flugi Rússa inn á loftvarnasvæði Íslands. Rússneskar sprengjuflugvélar hafa aldrei flogið jafn nærri landi og nú,“ segir Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar.

Erlendu miðlarnir Sky og BBC hafa fjallað um málið. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×