Erlent

Fleiri tugir látnir í miklum flóðum í Malaví

Atli Ísleifsson skrifar
Mikil úrkoma hefur verið í Malaví síðustu vikurnar. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Mikil úrkoma hefur verið í Malaví síðustu vikurnar. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Vísir/AFP
Um fimmtíu manns eru látnir og um 23 þúsund hafa neyðst til að flýja heimili sín vegna mikilla flóða í Malaví síðustu vikurnar. Peter Mutharika, forseti landsins, hefur skilgreint um þriðjung landsins sem hamfarasvæði og biðlar til alþjóðasamfélagsins um aðstoð.

Á vef breska ríkisútvarpsins segir að miðlar í nágrannaríkinu Mósambik hafi greint frá því að hópur 25 skólabarna hafi látist þegar börnin sópuðust með flóðunum í gær.

Mikil úrkoma hefur verið í landinu síðustu vikur og er búist við enn frekari rigningu næstu daga. Mutharika segir stjórnvöld ekki hafa fjárhagslegt bolmagn til að takast ein á við afleiðingar flóðanna.

Hús og uppskerur hafa eyðilagst auk þess að vegir og járnbrautateinar hafa rofnað.

Talsmaður yfirvalda segir fjölda manna hafa látið lífið þegar flæddi yfir bæi í Mangoche-héraði, um 100 kílómetrum suður af Blantyre, einnar helstu viðskiptaborgar landsins.

Íbúar hafa margir leitað skjóls inni í skólum og kirkjum á hæðum en aðrir þurfa að hafast við utandyra vegna plássleysis í byggingunum. Fjölda fólks er enn leitað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×