Erlent

Sem systkini að lokinni heimsreisu

Atli Ísleifsson skrifar
Elizabeth Quinn Gallagher og Jordan Axani.
Elizabeth Quinn Gallagher og Jordan Axani. Vísir/AP
Kanadískur maður sem bauð ókunnri alnöfnu fyrrverandi kærustu sinnar í heimsreisu segir að þau séu sem systkini að lokinni ferðinni. Margir höfðu vonast til að þau yrðu ástfangin í ferðinni, en svo varð ekki.

Hinn 28 ára Toronto-búi Jordan Axani birti í haust auglýsingu á Reddit þar sem hann auglýsti eftir kanadískri konu að nafni Elizabeth Gallagher til að bókaðir flugmiðar fyrrverandi kærustu hans færu ekki spillis. Þau höfðu ætlað sér að fara í heimsreisu, en hættu saman og gat Axani ekki fengið miða fyrrverandi kærustu sinnar endurgreidda. Brá hann því á það ráð að auglýsa eftir alnöfnu hennar til að fara með honum í þessa skipulögðu heimsreisu. Það tókst og héldu þau af stað þann 21. desember og sneru aftur heim þann 8. janúar.

Hin 23 ára Elizabeth Quinn Gallagher, alnafna fyrrverandi kærustu Axani, hafði þó greint frá því fyrir ferðina að hún ætti kærasta.

„Ég ætla að vera mjög skýr. Þetta átti aldrei að verða rómantísk ferð,“ sagði Axani við blaðamenn nokkrum klukkustundum eftir að hafa lent í Kanada. „Þetta var einungis platónskt. Ég lít alls ekki til Quinn í rómantísku ljósi. Það er engin rómantísk framtíð í spilunum. Hún er góður vinur minn. Ég lít á hana sem litlu systur, og það nær ekkert lengra. Og tilfinningar hennar eru gagnkvæmar.“

Í frétt Guardian kemur fram að Axani segi ferðina ekki hafa gengið snuðrulaust fyrir sig og að allt hafi tekið sinn tíma. „Það tók okkur um viku að læra hvort á annað. Að lokum vorum höfðum við þróað samband þar sem við sögðum fyndna einkabrandara eina stundina og gerðum okkur grein fyrir að hitt þurfti svigrúm fyrir sjálfan sig þá næstu.“

Axani og Gallagher ferðuðust til Milanó, Feneyja, Vínarborgar, Prag, Taílands og Hong Kong. Prag hafi verið í sérstöku uppáhaldi hjá Axani.

Fjölmargir fylgdust með ferð þeirra, bæði á Twitter og Instagram. „Þetta var mikið ævintýri. Við skemmtum okkur stórvel. Við lærðum mjög mikið um okkur sjálf og hvort annað.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×