Erlent

Níu ára drengur handtekinn vegna tyggjópakka

Samúel Karl Ólason skrifar
Saksóknarinn Barry McHugh segist sjá eftir þessu máli og að drengurinn hafi verið handtekinn.
Saksóknarinn Barry McHugh segist sjá eftir þessu máli og að drengurinn hafi verið handtekinn. Vísir/Getty
Lögregluþjónar í Idaho í Bandaríkjunum handtóku níu ára dreng fyrir að mæta ekki í dómsal. Þar átti að rétta yfir honum fyrir að hafa stolið tyggjópakka síðastliðið sumar. Lögreglustjórinn segir handtökuskipunina vera skrítna.

CNN hefur eftir lögreglustjóranum Scott Haug, að handtökuskipunin hafi verið gefin út eftir að drengurinn mætti ekki fyrir dóm í tvö skipti, þar sem rétta átti yfir honum. Hann segir að drengurinn hafi ekki verið handjárnaður við handtöku og að vel hafi verið komið fram við hann.

Nú hefur lögreglan komist að því að drengurinn hafi ekki mætt fyrir dómara vegna þess að móðir hans hafi ekki getað útvegað sér farartæki.

„Ef við hefðum vitað það, hefðum við hjálpað þeim,“ segir Haug.

Saksóknarinn Barry McHugh segist sjá eftir þessu máli og að drengurinn hafi verið handtekinn.

„Eftir að hafa farið yfir málið, hef ég komist að þeirri niðurstöðu að gerð handtökuskipunarinnar hafi verið mistök undir þessum kringumstæðum,“ hefur USA Today eftir saksóknaranum.

Hann sagði að drengurinn hefði ekki verið færður í fangageymslu og að honum hefði verið sleppt á föstudaginn, sama dag og hann var handtekinn. McHugh segist sjá eftir þessu og að hann muni reyna að koma í veg fyrir slík mistök í framtíðinni.

Hann sagðist ekki vera viss um hvort að móðir drengsins yrði ákærð vegna málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×