Erlent

156 af 157 læknanemum fengu hæstu mögulegu einkunn

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Læknanemi við háskólann í Árósum við lestur á bókasafni skólans.
Læknanemi við háskólann í Árósum við lestur á bókasafni skólans. Myndin er af Fésbókarsíðu háskólans
156 af 157 læknanemum við háskólann í Árósum í Danmörku fengu hæstu einkunn í prófi sem þeir þreyttu á dögunum. Ástæðan var einföld. Nemarnir höfðu spurningarnar og svörin með sér í prófið. Prófað var í þekkingu læknanemanna á hjarta, lunga og æðum.

Nemendur hafa aðgang að eldri prófum og mega taka þau með sér í prófið og svörin líka. Í þetta skiptið höfðu kennararnir ekki einu sinni fyrir því að semja nýjar spurningar heldur var prófið í heild sinni samsett úr eldri spurningum. Aðeins einum nemenda tókst ekki að svara öllum spurningum prófsins rétt en 156 af 157 fengu hæstu mögulegu einkunn sem er tólf í danska skólakerfinu.

Kristjar Skajaa, formaður læknadeildar, segir að deildin verði að gera opinber eldri próf. Því sé ekkert athugavert við að nemendur hafi þau með sér í prófin. Öll gögn séu leyfð í prófinu.

Engin ástæða til að efast um hæfni nemendanna

„En eins og ég skrifaði í tölvupósti til nemendanna, þar sem ég baðst afsökunar, þá er ljóst að þetta eru alfarið okkar mistök. Við notuðum eldri spurningar en það hefðum við ekki átt að gera.“

Skajaa segir að ekki megi endurnýta spurningar fyrr en kominn sé gagnabanki með um 10 þúsund spurningum. Hins vegar hafi aðeins verið um 400 spurningar í gagnbanka deildarinnar fyrir prófið sem fram fór síðastliðinn föstudag.

Einkunn nemendanna verður ekki breytt og ekki verður haldið annað próf. Ástæðan, segir Skajaa, er sú að nemendurnir gerðu ekkert rangt. Hann segir enga ástæðu til að efast um hæfni þeirra þrátt fyrir að útkoma prófsins sé ekki marktæk.

Nánar um málið á vef Berlingske.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×