Erlent

Breska pressan sögð svíkja tjáningarfrelsið

Jakob Bjarnar skrifar
Sky-sjónvarpsstöðin er talin hafa sýnt Caroline Fourest talsverða ókurteisi.
Sky-sjónvarpsstöðin er talin hafa sýnt Caroline Fourest talsverða ókurteisi.
Sky News sjónvarpsfréttastöðin breska, og fleiri fjölmiðlar á Bretlandi, sæta nú harðri gagnrýni en margir þeirra hafa tekið þá ákvörðun að birta ekki nýja forsíðu háðsádeiluritsins Charlie Hebdo – né skopteikningar blaðsins.

Í kjölfar árásarinnar á ritstjórnarskrifstofur Charlie Hebdo, þar sem níu manns voru teknir af lífi, hafa allra augu beinst að tjáningarfrelsinu og því hvernig fjölmiðlar umgangast það. Fram hefur komið sú áskorun að fjölmiðlar um víða veröld sýni stuðning í verki með að birta myndir Charlie Hebdo.

Þeir sem eru þeirrar skoðunar segja breska fjölmiðlun hafa náð nýjum lægðum í tvíbentri og aumri afstöðu sinni. Sky News var í gær með í viðtai Caroline Fourest, í beinni útsendingu en Fourest er ein þeirra sem lifði árásina á ritstjórarskrifstofur af. Í viðtalinu hellir Fourest sér yfir breska fjölmiðlamenn, segir þá hafa svikið sig, tjáningarfrelsið og eðlilega blaðamennsku. Þegar svo hún ætlar að lyfta blaðinu, sem mjög var fjallað um í gær en það seldist upp í milljónum eintaka, var gróflega klippt á viðtalið og Dharshini David þulur biður áhorfendur afsökunar ef þarna hafi eitthvað það birst sem gæti talist móðgandi.

Eftir hina hörmulegu atburði í París hafa fjölmargir fjölmiðlar tekið þá afstöðu að láta ekki kúga sig og hafa lýst yfir eindregnum stuðningi við Charlie Hebdo, á forsendum tjáningarfrelsisins. En ekki allir. Fjölmiðlar voru talsvert tregari í taumi með að taka eindregna afstöðu í þessum efnum fyrir tæpum tíu árum þegar Jótlandspósturinn birti myndir sem þóttu móðgandi í garð múslíma. Þá var til dæmis DV eini fjölmiðillinn á Íslandi sem birti myndirnar, á þeim forsendum að þær hefðu ótvírætt fréttagildi. Aðrir fjölmiðlar komu sér hjá því.

Í Poletiken í dag er vakin athygli á því að stóru fjölmiðlarnir í Bandaríkjunum, sem og á Bretlandi, heykjast á því að birta myndirnar sem allt snýst um; nýja forsíðu Charlie Hebdo; þrátt fyrir ótvírætt fréttagildi. En, danskir fjölmiðlar eru mjög uppteknir af málinu, enda þeim málið tengt með beinum hætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×