Innlent

Fyrrverandi starfsmenn DV stofna nýjan fjölmiðil

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir skrifar
Jón Trausti Reynisson fyrrverandi framkvæmdastjóri DV hefur tryggt sér lénið Stundin.is og stofnað útgáfufélag um rekstur nýs fjölmiðils, daginn fyrir gamlársdag,  ásamt fleiri fyrrverandi starfsmönnum DV. Fjölmiðillinn sem á að bera nafnið Stundin, verður í eigu blaðamanna en leitað verður til almennings um fjármögnun.

„Þessi vinna hefst strax eftir áramót, en við reiknum með að fá húsnæði á næstu dögum,“ segir Jón Trausti við Stöð 2 en hann segist stefnt að útgáfu, bæði á vefnum og prenti. Hann segist vilja búa til fjölmiðil  sem sé ekki tengdur neinum hagsmunaaðilum sem geti haft áhrif á umfjallanir. „Síðast en ekki síst viljum við vera í eigu blaðamannanna sjálfra,“ segir Jón Trausti en leitað verður eftir stuðningi við verkefnið á næstu dögum gegnum vefinn Karolina Fund.

Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, fyrrverandi aðstoðarritstjóri DV, mun ritstýra vefnum ásamt Jóni Trausta Reynissyni: ,,Hópurinn er enn í mótun en þetta eru góðir blaðamenn. Við stefnum að fjölmiðli sem er óháður og getur sagt meira, án þess að vera neinum háður. Við erum ekki að búa til nýtt DV. Sá tími er liðinn og vonandi gerðum við eitthvað gott þar. Núna langar okkur að stofna nýjan fjölmiðil sem miðlar upplýsingum til almennings og tekur á málum með öðrum hætti en aðrir fjölmiðlar geta gert.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×