Erlent

Fórnarlamb nauðgunar lést á Indlandi eftir 42 ár í dái

Atli Ísleifsson skrifar
Málið hefur vakið umræður á Indlandi um réttarkerfið og hvort heimila beri líknardauða.
Málið hefur vakið umræður á Indlandi um réttarkerfið og hvort heimila beri líknardauða. Vísir/AFP
Indverski hjúkrunarfræðingurinn Aruna Shanbaug hlaut ólæknandi heilaskemmdir í kjölfar nauðgunar sem hún varð fyrir í Mumbai árið 1973. Hún var í dái í 42 ár og lést um helgina. Dauði hennar og örlög hafa skapað miklar umræður í Indlandi.

Shanbaug var nauðgað á sjúkrahúsinu þar sem hún starfaði af ræstingarmanni þegar hún var 25 ára gömul. Nauðgarinn batt Shanbaug með málmkeðjum og skildi hana svo eftir mjög illa leikna. Enginn var þó ákærður í málinu.

Mál Shanbaug hefur margoft ratað í indverska og erlenda fjölmiðla, meðal annars árið 2011 þegar æðsti dómstóll Indlands hafnaði kröfu rithöfundarins og mannréttingafrömuðarins Pinki Virani um að starfsfólk sjúkrahússins léti af því að gefa Shanbaug næringu og að henni yrði veitt líknandi meðferð.

Útbreidd nauðgunarmenning

Kvenréttindakonan Kavita Krishnan segir að sú athygli sem hefur beinst að máli Shanbaugs hafi ekki leitt til að dregið hafi úr kynferðisbrotum gegn konum á Indlandi.

„Þetta mál segir margt um öryggi kvenna á vinnustöðum. Það er útbreidd nauðgunarmenning sem bara hefur versnað. Margt þarf að gera til að breyta þessari menningu,“ segir Krishnan í samtali við Al Jazeera.

Reiði á samfélagsmiðlum

Mál Shanbaugs hefur vakið mikla reiði meðal Indverja og hefur andlát hennar fengið mikla athygli á samfélagsmiðlum svo sem Facebook og Twitter. Eru margir sem segja að réttarkerfið hafi brugðist Shanbaug.

Í frétt BBC segir að fjölmargir Indverjar telji raunir Shanbaug ávallt verða svartan blett í sögu Indlands, á meðan aðrir eru bjartsýnir á að saga hennar muni vekja upp umræðu í þjóðfélaginu um hvort heimila beri líknardauða.

Aruna Shanbaug varð 68 ára gömul.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×